Flýgur og flýgur, hraðar, hraðar.

Ég læt pólitíska ástandið fara ferlega í taugarnar á mér, en þegar það er hægt að vera með skemmtilegu fólki og gera eitthvað skemmtilegt þá dregur það úr því að ég sé að velta mér upp úr þessu öllu saman, enda svo gjörsamlega vonlaust því ég hef auðvitað ekkert um þetta að segja – bara tuða endalaust til þess að fá útrás.  
Ég sé að þetta er ekki efni sem mig langar til þess að skrifa um í pistilinn minn svo það er best að venda sínu kvæði í kross og sjá hvort það kemur ekki eitthvað annað upp í hugann. Eins og oftast þá endar maður hvort sem er með því að skrifa eitthvað allt annað en til stendur að setja á blaðið.

—————————————-

Það best að tala um tímann, þennan sem ýmist silast eða flýgur áfram.

Þá er enn ein vikan liðin, en þær eru fljótar að líða blessaðar. Það er af sá tími þegar mér fannst tíminn alltaf silast svo hægt áfram – allt of hægt.  Í minningunni var alltaf svo margt sem ég var að bíða eftir. Fyrst að verða nógu stór til að fara í skóla, síðan að bíða eftir því að fermast og næst að verða nógu gömul til þess að fá að fara með kærastanum inn á skemmtistað, en þangað komst ég ekki  löglega fyrr en þremur árum eftir að ég gifti mig 18 ára gömul. Ég þurfti nefnilega að vera orðinn 21 árs til þess að fá að fara inn á vínveitingahús á þeim árum.  það þýddi ekkert að segja við dyraverðina að ég færi hvort sem er aldrei á barinn því ég drykki bara gos og þar að auki hefði ég haft aldur til þess að gifta mig og gæti sýnt giftingarvottorð því til staðfestingar – Nei,  allt kom fyrir ekki ég fékk ekki að fara inn.  Stundum slapp ég þó við að vera spurð um aldur, en það var alltaf happadrætti hvort maður kæmist inn eða þyrfti að fara heim aftur. 
Þegar þessu var náð kom það næsta sem beðið var eftir, en það  var að ég eignast mitt fyrsta barn og ég beið eftir því þar til ég var komin á árið sem ég varð 27 ára þegar ég eignaðist Guðbjörgu og síðan beið ég í sjö ár eftir Sigurrós.

 Eftir það þá var nú flest komið sem beðið hafði verið eftir og eftir því sem árin hafa liðið upp frá því þá hefur tíminn liðið hraðar og hraðar og nú er svo komið að tíminn bókstaflega flýgur áfram á ógnarhraða og ég verð að hafa mig alla við, til að hanga í honum.  Það má eiginlega segja að við hver áratugaskipti þá hafi hraðinn aukist.

Eitt hlýtur að vera staðreynd, að þegar tíminn flýgur svona áfram þá hlýtur það að vera sönnun þess að það sé gaman að lifa og margt að lifa fyrir. Það er kannski rétt að rifja upp þessa viku sem er að líða og sjá hvort það hefur ekki eitt og annað á dagana drifið. Það er ágætt að líta öðru hvoru til baka því það koma þeir tímar sem manni finnst ekki mikið hafa verið á dagskránni þó tíminn hafi flogið.

Jú þessi vika sem nú er að líða, er engin undantekning. Ég fór í messu á sunnudaginn og hitti þar elstu barnabörnin mín og síðan Guðbjörgu og fjölskyldu í kaffi og pönnukökur.  Ég hitti nokkrar vinkonur yfir léttum hádegisverði á veitingastað einn daginn, fékk góða bloggvini frá Portúgal í heimsókn annan dag, fór með Hauki í Hafnarfjörð þar sem hann bauð mér í kaffi og fínerí og systir mín kom í heimsókn einn daginn. Í dag fór ég svo með Sigurrós, Guðbjörgu, Karlottu og Freyju í verslunarmiðstöðina í Hafnarfirðinum, en þar var allt með 20% afslætti og ég afrekaði það að kaupa tvær jólagjafir – ekki ráð nema í tíma sé tekið.  Á morgun förum við svo í kaffiboð til frænku Hauks og á sunnudaginn í afmæliskaffi á Selfoss.

Ég sé þegar þetta hefur verið sett á blað að það hefur bara heilmikið skemmtilegt gerst í þessari viku. Nú bíð ég spennt eftir því hvað næsta vika færir mér.

————————–

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

One Response to Flýgur og flýgur, hraðar, hraðar.

  1. Já mín kæra, tíminn flaug ekki svona i den tid, svo mikið er víst. Njóttu lífsins með kærri kveðju.

Skildu eftir svar