Hvert stefnum við?

Mér brá í morgun þegar ég las eftirfarandi í Morgunblaðinu  "Ekki má syngja jólasálma eða fara með bænir á litlu jólunum í leik- og grunnskólum Reykjavíkurborgar, verði tillaga meirihluta mannréttindaráðs borgarinnar um trúar- og lífsskoðunarmál samþykkt."   Síðan kom fram að fulltrúar Besta flokksins, Samfylkingarinnar og VG í téðu ráði hafi nýlega kynnt tillögur sem fela þetta í sér. Mér er nú nokk sama úr hvaða flokkum þeir eru, sem koma með tillögurnar, ég finn bara til með því fólki sem setur svona tillögur fram og undrast hvað því gengur til.

Svo ég vitni nú aftur í textann " Þessu er ekki ætlað að vera nein aðför að starfi Þjóðkirkjunnar……í tillögunni segir að tilgangurinn sé að tryggja rétt foreldra til að ala börn sín upp í þeirri  trúar- og lífsskoðun sem þeir kjósa og tryggja þar með trúfrelsi þeirra. …."

Með þessu móti finnst mér, að það sé verið að meina börnum að kynnast kristinni trú, sem vill svo til að er jú okkar þjóðartrú.   Mér finnst að börn eigi að fá að njóta þess að læra kristinfræði, syngja sálma við hátíðleg tækifæri og biðja bænir því þannig kynnast þau sinni þjóðartrú sem í okkar tilfelli er jú kristni.
En, þau þurfa líka að læra um annarra trú og virða þá sem hafa aðra trú til þess að geta sjálf síðar meir ákveðið hvað þau telja að reynist sér best. Mér finnst líka sjálfsagt á litlu jólunum að leyfa þeim börnum sem hafa aðra trú, að syngja sína sálma svo enginn sé  skilinn eftir útundan.

Svo er það orðið nokkur hópur, sem telur sig trúlausan og eru af þeirri ástæðu á móti öllu sem heitir kristinfræði í skólum og reyndar öllum trúarlegum athöfnum.   Þeir sem í þeim hópi eru vilja ekki að börn þeirra taki þátt í neinu sálmarugli eða annarri ítroðslu eins og þeir gjarnan kalla það þegar eitthvað kristilegt fer fram.  Þegar börn eiga í hlut þá kalla ég Þetta hinsvegar brot á rétti þeirra til þess að fá að kynna sér hin ýmsu trúarbrögð og þar með kristnina,  til þess að þau geti síðar valið sinn trúar eða ekki-trúar feril sjálf. Hvernig er hægt að velja ef ekki má kynna sér það sem í boði er.  

Ég finn sérstaklega til með þeim hópi sem eingöngu trúir á mátt sinn og megin og ég velt því stundum fyrir mér hvort þetta fólk hafi aldrei lent í neinum raunum eða háska um ævina.

Ég hef sjálf farið í gegnum tímabil erfiðleika og sorgar og þá kom sér vel sú trúarfræðsla sem ég fékk sem barn bæði heima og í skólanum. Ég minnist þess að ég for aldrei að sofa fyrr en mamma hafði komið inn og beðið með mér faðirvorið og gefið mér góðanótt-kossinn. Þá leið mér svo vel og sofnaði örugg. 
Í barnaskóla hafði ég líka fyrstu árin yndislegan kennara Önnu Magnúsdóttur, sem byrjaði hvern morgun á því að láta okkur fara með faðirvorið.  Það vildi svo til að hún var líka kennari Odds míns og fleiri af vinum okkar sem voru með honum í skóla og við töluðum oft um það og vorum sammála um hvað þetta hefði gert okkur okkur gott og hvað við fengum mikið veganesti út í lífið hjá þessari yndislega góðu konu sem okkur þótti öllum svo vænt um. Sumir þessara vina okkar fóru meira að segja þegar þau voru orðin fullorðin, til þess að heimsækja hana en þá var hún orðin prestsfrú á Torfastöðum og síðar í Skálholti.

Sá styrkur sem trúin hefur veitt mér á erfiðum stundum er mér ómetanlegur og ég held sannast að segja að ég hefði ekki komið ósködduð út úr þessum tímabilum í lífi mínu án trúarinnar. 

Ég hef notað mína barnatrú og er ekkert að velta því endalaust fyrir mér hvort að hvert einasta orð í Biblíunni sé endilega satt, rétt eða rökrétt.  Á meðan ég fæ frið í sálinni, vitandi að það er til afl sem er mér æðra, þá líður vel með mína barnatrú og ég naut þess að syngja jólasálmana og fara í sunnudagaskólann með mínum dætrum. Síðan höfðu þær frelsi til þess að kynna sér önnur trúarbrögð og velja sér í framhaldi af því þá trúariðkun sem þær óskuðu sjálfar.

Ég vona að okkur auðnist að halda áfram að leyfa börnunum okkar að kynnast kristninni og einnig að kynna sér önnur trúarbrögð og kenna þeim að virða bæði rétt annarra og trúarskoðanir.  Mér finnst að þetta eigi að vera gerlegt innan skólakerfisins í stað þess að banna alla trúarfræðslu.

Ekki veit ég um eina einustu manneskju sem hefur beðið tjón af því að hafa lært Biblíusögur í skóla og sungið jólasálma á litlu jólunum þegar hún eða hann voru börn.

Nú læt ég þessum vangaveltum mínum lokið alla vega í bili.

 

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

5 Responses to Hvert stefnum við?

  1. Veistu Ragna þessi pistill var eins og skrifaður af mér sjálfri, svo sammála er ég þér. Mér finnst víða farið að bera á mikilli reiði, og virðist það fólk sem svo er ástatt fyrir nota hvert tækifæri til að rakka niður allt mögulegt. Hvernig eiga börnin að virða reglur og sýna virðingu ef við látum svona. Hvar eru gömlu gildin sem engan skaðaði? Kærust í bæinn þinn.

  2. Unnsteinn litli frændi says:

    Ég er sammála því að við ættum að opna fyrir betri trúarbragðafræði. Þótt svo að ég persónulega, myndi flokkast sem trúlaus, þá að sjálfsögðu verður að kenna fólki um alla trú.

    Hitt er annað mál og hér verðum við ekki sammála. Ég vil bara allsenga þjóðtrú. Fyrir mér býr það einmitt til þennan kassa, þetta þjóðfélag sem útskúfar hina frá meirihlutanum.

    Ég er ekki að leggjast með boðum og bönnum um söngva, enda eru þeir mest svo saklausir, þar til maður fer að átta sig á því hvað þeir þýða og þá getur maður valið það sjálfur hvort maður vil syngja með.

    Ég ber mikla virðingu fyrir þér, og þinni trú. Finnst það fallegt og fyrir þig hefur það hjálpað.

    Það sem mér finnst ekki eðlilegt er að prestar séu að troða sér í skóla landsins, mér finnst ekkert eðlilegt að það sé kennd kristnifræði. Börnin verða að geta komið á hlutlausan stað, þar sem þau geta upplifað að þau séu ekki öðruvísi, bara vegna þess að mamma og pabbi eru í vísindakrikjunni eða eru búddistar.

    Það er ekki hlutlaust að hafa eitthverja presta valsandi um að tala um Jesú og boðorðin tíu.

    Þetta er það sem mér finnst.

  3. Unnsteinn litli frændi says:

    þessi er einmitt að benda á það fáránlega í þessu dæmi: http://bloggheimar.is/einarkarl/2010/10/18/a-meirihlutinn-alltaf-a%C3%B0-ra%C3%B0a/

  4. Ragna says:

    Ég veit ekki til þess að prestar séu að koma í skólana – það er þá eitthvað seinni tíma dæmi -ég þekki það ekki.
    Mér sýnist nú að við verðum ekki sammála um þetta Unnsteinn minn, en mér þykir jafn vænt um þig þrátt fyrir það. Ég ætla að segja þér svona í leiðinni að bæði við Oddur, amma þín og eflaust fleiri báðu mikið fyrir þér þegar þú fórst, lítið barn, í hjartaaðgerð erlendis. Hver veit nema það hafi hjálpað til að allt gekk svona vel.

  5. Unnsteinn litli frændi says:

    hver veit… og eins og ég segi ég ber virðingu fyrir trú annara. Ég veit að það var fallega hugsa til mín og báðu fyrir mig. Það er fallegt!

    Enda þykir mér mjög vænt um ykkur og myndi aldrei segja að það hafi ekki hjálpað.

    En ég sendi þér bara hlýja strauma og fallegar hugsanir í staðinn fyrir bæn, ef það er í lagi, enda veistu hvað ég er ruglaður með bænirnar. 🙂

Skildu eftir svar