Komin aðventa 2010

Mér bara brá þegar ég ætlaði aðeins að kíkja á bloggið mitt og sá að ekkert er þar að finna síðan við fórum í vetrarferðina í Úthlíð alveg í byrjun  nóvember. Ég veit svo vel að tíminn flýgur, en að hann fljúgi svona svakalega hratt gerði ég mér bara hreint ekki fulla grein fyrir. Bloggið er nefnilega mín dagbók sem mér finnst gaman að fletta öðru hvoru upp í og skoða hvað ég var að gera t.d. á aðventu 2008 eða níu eða bara hvað sem er. Þetta árið eru allt of miklar eyður og kenni ég auðvitað Fésbókinni um þær. Það er svo gaman að kíkja á Fésbókina og sjá hvað vinir mínir eru að gera, án þess að það taki mikinn tíma, bara aðeins að renna yfir listann öðru hvoru og sjá hvað er nýtt. En eins og ég segi, þá leysir Fésbókin ekki dagbókina mína af hólmi og dagbókina langar mig til þess að eiga áfram því hún er alltaf á sínum stað og hægt að leita í henni alveg frá fyrsta degi. Fésbókin fer svo hratt yfir að hún er orðin úrelt eftir daginn og skilur ekkert eftir nema stundargamanið sem þó er ágætt og er jú það sem maður sækist eftir á þeim vettvangi. 

Ég hélt aðeins upp á afmælið mitt að þessu sinni, nokkuð sem ég hef ekki gert lengi því Haukur býður mér alltaf út að borða á afmælisdaginn minn. Nú langaði mig svo til að bjóða aðeins í kaffi og gerði það á sunnudeginum,  en Haukur bauð mér út að borða í Turninn á sjálfan afmælisdaginn. Hvort tveggja var mjög ljúft. Ég var vön að hafa alltaf smá afmæliskaffi á afmælisdaginn minn fyrir mína allra nánustu og fyrir tengdafólkið mitt og mér fannst svo gaman að rifja það upp aftur. Ágætt að breyta til svona á 5 og 0.

Veturinn fram að þessu hefur verið alveg yndislegur og ekki hefur veðrið spillt. Það hefur oftast verið sól, logn og hitinn svona rétt undir eða yfir frostmarki. Ég var að hugsa um það áðan að það eru ekki nema um 20 dagar þangar til daginn fer aftur að lengja, en að þessu sinni finnst mér bara ekkert skammdegi hafa verið enda sólin skinið flesta daga. Ég er nú lítið farin að jólast nema jú að búa til nærri 70 jólakort en mér finnst það alveg ómissandi skemmtun að búa til jólakortin sjálf.  Ég á svo eftir að finna mér notalega stund til þess að skrifa á kortin, en sú athöfn finnst mér líka svo ómissandi því þá hugsa ég til hvers og eins sem er að fá frá mér jólakveðju og það er alltaf svo gaman að rifja upp góð kynni við fólk sem hefur fylgt manni í gegnum tíðina.

Ég ætla að reyna að fara ekki að hleypa mér í neitt stress fyrir jólin en reyna að hafra vit á því að njóta bara þessa yndislega tíma. Aðventuskrautið er að mestu komið upp og ég er búin að kaupa allflestar jólagjafir og ætla ekkert að missa mig í jólabakstrinum. Ég segi það alla vega núna, en lofa svo sem ekki að ég missi mig í einhvern óþarfa bakstur einhvern daginn bara svona til að allt sé eins og venjulega. Vonandi vitkast maður þó eitthvað með hverju árinu sem líður.

Við erum búin að vera nokkuð dugleg að fara í leikhús í haust en eigum eftir að sjá Fjölskylduna í Borgarleikhúsinu fyrir jólin, en sáum Harrý og Heimi um daginn og einnig Fólkið í kjallaranum sem var mjög góð sýning.  Svo fórum við Haukur á hádegistónleika í vikunni og hlustuðum á bróðurdóttur hans Hauks, Eygló Rúnarsdóttur syngja. Hún er yndisleg messo-sopran söngkona og ég hlakka til að heyra í henni oftar.
Það er svo nauðsynlegt að gera sér dagamun öðru hvoru og fara í leikhús eða eitthvað annað skemmtilegt til tilbreytingar.

Sigurrós mín var hérna í nokkra daga, en hún var í hálskirtlatöku á föstudaginn og þáði boð mitt að vera hérna hjá mömmu fyrstu dagana. það er erfitt að vera heima hjá litlum börnum sem ekki skilja að mamma má ekki lyfta þeim eða getur talað við þau. Svo er ástandið sama á Freyju litlu sem veit ekki að það á að sofa um nætur. Hún hefur verið í því núna að sofa ekki nema svona einn til tvö tíma á milli þess sem hún vakir á nóttunni.  Jói tók að sér heimilispakkann og vökurnar á nóttunni á meðan Sigurrós var hér að jafna sig eftir kirtlatökuna – Hann hlýtur nú að vera orðinn talsvert lang svefnlaus hann Jói því það er erfitt að vera einn með barn sem sefur aldrei á nóttunni.  Ragna Björk var afskaplega ánægð að sjá mömmu sína aftur eftir þessa daga og sagðist vera búin að sakna hennar svooooo.

Í dag var sama yndislega veðrið og verið hefur svo ég ákvað að drífa mig til þess að koma ljósaluktunum í kirkjugarðana.  Haukur kom með mér, vopnaður sleggju til þess að slá festingunni niður í jörðina, en það kom ekki til þess að hann þyrfti að nota hana því það var ekki eins mikið frost í jörðunni og við héldum. 
Því miður gleymdist myndavélin heima, en það hefði verið gaman að setja hérna inn myndir sem sýndu hvað veðrið var fallegt.  Svo var ósköp notalegt að fara á konditoríið í Smáranum og fá sér tertusneið og kaffi á heimleiðinni og kíkja aðeins í Rúmfatalagerinn þar sem hvergi er lófastór blettur sem ekki er eitthvert dót á.

Í fyrramálið hitti ég þær vinkonur Ingunni og Birgit og við ætlum að fá okkur snæðing saman í hádeginu á Jómfrúnni í Lækjargötunni og síðan er mér boðið í kaffi og konfekt hjá konu sem ég kynntist hérna á heimasíðunni minni, en hún býr hérna rétt hjá mér. Á laugardaginn ætlum við Oddur Vilberg síðan að skreppa saman og jólast smávegis, en ég var áður búin að eiga dagstund með Karlottu.  Svo langar mig til að taka frá einn sunnudag og fara með litlu krakkana upp í Árbæjarsafn, en þar er dagskrá alla sunnudaga til jóla.

Svona ganga nú dagarnir fyrir sig hérna hjá þeirri gömlu í byrjun aðventu 2010.  Vonandi verður aðventan öll eins ánægjuleg eins og byrjunin.

 

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

4 Responses to Komin aðventa 2010

  1. Sigurrós says:

    Alltaf gaman að lesa færslurnar þínar, mamma mín 🙂 Frábært hjá þér að eiga svona flotta dagbók til að fletta upp í.

    Takk fyrir þjónustuna síðustu daga, þetta var algjörlega ómetanlegt!

  2. Svona á að lifa á aðventunni mín kæra. Ljúfar kveðjur frá Hornafirði.

  3. Nota mér aðstöðu mína því ég er ekki á fésinu. Ég get ekki kommentað á síðu Þórunnar, og ef þú Þórunn kemur hér inn þá varð bestimann yfir sig hrifin af gömlu Vopnafjarðarmyndunum.

  4. þórunn says:

    Dagbókarfærslur
    Ég var sannarlega farin að bíða eftir að þú skrifaðir eitthvað í dagbókina, hún er svo mikið skemmtilegi og persónulegri en fésið, þó ég líti þangað líka daglega. En fésið hefur líka yfirtekið gömlu góðu tölvupóstana sem fóru á milli okkar, ég sakna þeirra líka en get auðvitað kennt sjálfri mér um að drífa mig ekki í að skrifa. Það er engin von um að fá bréf ef maður skrifar ekki sjálfur.
    Guðlaug, hefur þú prófað að skrifa athugasemd hjá mér og bíða svo í einn dag, ég þarf nefninlega að samþykkja allt sem kemur inn hjá mér, fæ það í tölvupóstinn og fyrr sést það ekki á dagbókinni minni. Gaman að bóndinn hafði gaman af gömlu myndunum.

Skildu eftir svar