Þátturinn um Reyni Pétur.

Ég horfði í gærkveldi á heimildarmyndina um hann Reyni Pétur í sjónvarpinu. Ég horfði auðvitað á sínum tíma eins og allir landsmenn á fréttir af honum í göngunni frægu og viðtölin sem hann Ómar Ragnarsson átti við hann bæði um tölur og fánana. Reynir Pétur er stórmerkileg persóna.

Það var svo gaman að sjá í myndinni í gær hvað hann er hamingjusamur með Hönnu sinni og hvað þau hafa hreiðrað vel um sig þarna á Sólheimum og alltaf hönd í hönd.  Fólk eins og Reynir Pétur getur kennt okkur svo mikið. Hann er svo lífsglaður, ann náttúrunni og kann að meta hvað það er sem gefur lífinu gildi.

Já við sem teljum okkur heilbrigð ættum að taka okkur hann til fyrirmyndar og læra að meta lífsgæði okkar. Lærum af honum að vera þakklát fyrir það sem máli skiptir í lífinu. Lærum að vera þakklát fyrir þau tækifæri sem við höfum fengið og fáum til að auðga líf okkar og annarra, í stað þess að vera sífellt vanþakklát og velta okkur upp úr því að hlutirnir séu ekki eins og við hefðum kosið, bæði hvað útlit og lífsgæði varðar. Já við þusum um allt það sem við eigum í raun að vera þakklát fyrir.

Hugsa sér t.d. þegar hann talaði um að það hefði verið gaman að eignast barn. Hann benti á mynd af sjálfum sér, ungum dreng, og sagði að svona sæi hann son sinn fyrir sér og hann hefði þessa mynd til þess að ímynda sér að þetta væri sonur hans.  Mér fannst þetta svo einföld og yndisleg mynd sem hann gerði sér í hugarlund til þess að geta sætt sig við að eiga ekki sjálfur son.

Svona persónur auðga líf okkar á allan hátt með einlægni sinni, jákvæðni og manngæsku.

Vonandi kemur aldrei til þess að Sólheimar neyðist til þess að hætta rekstri vegna fjárskorts. Heimilunum sem fólkið þarna á, flest frá bernsku má ekki hreyfa við. Hvað yrði um þetta samfélag ef það ætti að tvístra því og koma fólki fyrir hingað og þangað – Ég get ekki hugsað þá hugsun til enda. 

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

2 Responses to Þátturinn um Reyni Pétur.

  1. Þetta var yndislegur þáttur, og ég trúi aldrei að það verði hróflað við Sólheimum. Ef svo fer verður okkur að mæta!

  2. Katla says:

    Þátturinn var yndislegur og ég hugsaði nákvæmlega það sama og þú; við gætum og ættum öll að læra af Reyni Pétri og læra að vera þakklátari.

Skildu eftir svar