Kominn aðgerðardagur.

Af því ég þarf ekki að mæta uppi á spítala fyrr en klukkan 10:30 þá ætla ég að nota tímann  til þess að setja hérna inn smá viðbót við frásögn mína.

Þegar mér var tilkynnt um að það þarna á Bráðamóttökunni eftir sneiðmyndina af bakinu, að ég ætti að fara í aðgerð eftir 5 daga,  þá var það ekki baklæknirinn sem tilkynnti mér það heldur meltingarsérfræðingurinn sem kom með skilaboð og tilkynnti mér um framhaldið.

Ég hef verið að reyna að ná baklækninn, til þess að spyrja hvort þetta sé nokkuð sama brjósklos og ég fékk í fyrra og hef verið í sjúkraþjálfun útaf síðan. Varðandi það þá sagði Aron læknir nefnilega að það væru 50% mögulerikar á að það lagaðist en líka 50% að það gæti versnað.

Núna þegar ég hef verið á stórum steraskammti og sterkum verkjatöflum þessa daga, þá varð ég allt í einu svo óróleg yfir þessu að mér fannst ég verða að fá að vita þetta og ég þekki heldur ekkert til þessa skurðlæknis og hef aldrei heyrt hann nefndan. Ég hef ekkert fengið að tala við hann eftir að þetta var staðfest og þegar læknaritarinn hringdi til mín á föstudaginn vegna undirbúnings fyrir aðgerðina, þá var mér sagt að ég skyldi ekkert reikna með því að fá samband við hann þegar ég kæmi uppeftir því það væru tveir á undan og ekkert svigrúm. Þegar ég bar upp þessar áhyggjur mínar þá sagði hún bara "hann hefur örugglega farið yfir þetta allt".  
Þetta er svo búið að vera að naga mig alla helgina.

Mér datt í hug í gærkveldi að reyna að fá að tala við heimilislækninn núna klukkan átta.  Ég skildi því eftir skilaboð í morgun og það stóð ekki á því hjá þeim ljúfa manni að hringja.

Það kom mér hins vegar á óvart þegar ég frétti að þeir á Bráðamóttökunni höfðu aldrei samband við hann, þó það lægju til þeirra skilaboð um það um morguninn þegar ég lá á Bráðamóttökunni. ( Ég segi betur frá þessu í síðasta pistli)
Það sem ég undrast er hinsvegar,  að í dag sagði hann að þeir hefðu aldrei svarað skilaboðunum um að hafa samband við sig og hann segist hvorki hafa heyrt hósta né stunu frá sérfræðingunum. Hann vissi ekki að ég væri að fara í aðgerð núna og hefur ekkert frétt síðan hann hringdi í gemsann minn og bað mig um að segja læknunum á Bráðamóttökunni hvað hann hefði fundið út og biðja þá að hringja til sín.  

Eftir símtalið í morgun er ég hinsvegar orðin alveg róleg, því hvað skurðlækninn varðar þá vinnur hann með Aroni svo ég get verið róleg út af því. Ástæðan fyrir hraðanum á að skera telur heimilislæknirinn líkast til vegna þess að brjósklosið er svo stórt og ég fékk líka staðfest að þetta er alveg nýtt og ofar en þau sem fyrir eru.

Eftir stendur spurningin. Hvað er eiginlega í gangi í heilbrigðiskerfinu okkar?

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

10 Responses to Kominn aðgerðardagur.

  1. Sigurrós says:

    Mér skilst að aðgerðin hafi átt að byrja kl. 13 svo að við höfum ekki frétt hvernig gengur. Ég kemst ekki í tölvu fyrr en í fyrsta lagi kl. 16 en þá skal ég setja inn línu hér og á Facebook með fréttum af frúnni 🙂

  2. Sigurrós says:

    Það fréttist af henni áðan, þá var hún vöknuð en var enn uppi á vöknunardeild. Látum vita nánar þegar við heyrum í henni sjálfri 🙂

  3. Sigurrós says:

    Jæja, hún hringdi sjálf um leið og ég var búin að skrifa síðustu skilaboð. Henni líður ágætlega og heldur að það hafi allt gengið vel 🙂

  4. Gott að heyra og skilaðu kveðju.

  5. Sigurrós says:

    Mamma var að hringja núna (kl. 22:30) og hún var að labba inn úr dyrunum heima hjá sér. Það er sko passað að láta fólk ekki taka pláss í spítalarúmi of lengi…! Hún var nokkuð hress og ekki með mikla verki en býst svo sem við því að þeir séu væntanlegir þegar svæfingin fer að hverfa úr líkamanum.

  6. Er hún komin heim?!! Þetta er ekki alveg í lagi. Kærust batakveðja.

  7. Ragna says:

    það hafa margir undrast að ég skyldi skorin svona strax og sjálf átti ég engin svör við því fyrr en ég heyrði útskýringar læknisins í gær. Hann sagði að þetta brjósklos hefði verið mjög stórt, mikið sem kom úr því og þar sem það gaf svona taugaverk og bólgu niður í kviðinn, væri það að líkindum ástæðan fyrir því að ég er svona algjörlega dofin á því svæði og að ristillinn stíflaðist svona.
    Nú er bakið viðgert og hitt stendur örugglega líka til bóta. Ég er ekki frá því að dofinn og bólgan niður í kviðinn sé líka aðeins minni í dag.
    Nú má ég ekki lengur standa hérna við upphækkuðu tölvuna mína. Allt er gott í hófi, hreyfa sig …og liggja svo á milli. Það eru fyrirmæli dagsins.
    Takk fyrir góðu kveðjurnar – Knús á alla sem koma hér í heimsókn.

  8. Hildur says:

    Ragna mín , var að lesa veikindasöguna þína,þetta er alveg ótrúlegt að heyra, en nú ætla ég bara að vona að þú sért á rétttri leið með batann, sendi mínar bestu kveðjur til þín.

  9. Katla says:

    Ég er bara gjörsamlega orðlaus yfir þessum tveimur síðustu pistlum! Gott hjá þér Ragna að skrá þessa ótrúlegu sögu niður, þvílíkt og annað eins!!
    Ég vona innilega að þú náir þér hratt og vel með mjög kærum og hlýjum kveðjum!

  10. Hvernig gengur, og hvernig líður þér? Batakveðja.

Skildu eftir svar