Framhald á sjukrasögu.

Æ, fyrirgefið þið, sem alltaf styðjið við bakið á mér og hafið verið að bíða eftir fréttum. Guðlaug mín, þakka þér fyrir umhyggjuna og að hringja í Sigurrós til að spyrja um mig.
Ég er bara svo gjörsamlega komin með upp í kok af þessu veseni mínu að ég hef ekki haft rænu á að setja eitthvað hérna inn á bloggið mitt.  

Það er nú af bakskurðinum að segja að hann gekk vel og miðað við allt hitt vesenið, þá er hann ekki meira mál en svo, að ég hafi  skroppið til tannlæknis.  Ástæðan fyrir því að það lá á að gera við þetta var sú, að þetta var stórt brjósklos og mikið sem þurfti að hreinsa úr því. Svo lá þetta nálægt mænunni og þrýsti á taugar sem liggja niður í kviðinn og ég er enn að berjast við afleiðingarnar af því. Nú eru bakskurðir gerðir sem dagaðgerðir og ég kom heim klukkan að ganga ellefu um kvöldið og það var svo sem allt í lagi, nema hvað ristillinn var að angra mig.

Ég ætla nú að reyna að stytta þessa leiðindasögu eins og ég get því hún er satt að segja orðin nokkuð löng eða fimm ferðir upp á Bráðavakt plús ein í bakskurðinn og núna alla helgina hefur meltingarsérfræðingur sem ég hef verið hjá í gegnum tíðina verið að hringja í mig, fylgjast með og ráðleggja um lyf, en ég á eftir að fá að vita hvað hún tekur til bragðs í dag.  

Ég var búin að segja ykkur að það var jú heimilislæknirinn minn sem fann út með brjósklosið sem líkast til hefur valdið öllum þessum vanda mínum. Þeir á  Bráðavaktinni eiga engan heiður af því að hafa fundið það út.  Ég er enn með stíflaðan ristilinn og dofin niður í kvið síðan fyrir áramót þrátt fyrir öll möguleg  lyf og mataræði. Sjöfn meltingarlæknirinn minn hefur talsverðar áhyggjur af þessu,  en hún er búin að vera að hringja í mig og fylgjast með mér alla helgina og fylgir þessu nú eftir þangað til þetta verður komið í lag. 

Því miður hefur þetta ferli sýnt manni svo um munar hvað niðurskurðurinn er að fara illa með sjúklinga – Hvernig mætti líka annað vera en að það bitni á sjúklingunum þegar læknar á sjúkrahúsunum virðast hafa þau fyrirmæli að fólk sé rannsakað sem minnst og sent heim sem fyrst. Það er hinsvegar spurning hvort það sé sparnaður í því að senda fólk fram og til baka sárkvalið og láta það koma aftur og aftur inn á Bráðavakt í stað þess að finna út hvað er að því þegar það kemur fyrst og reyna að sjá til þess að það fái viðhlýtandi rannsókn og meðferð í framhaldi af því.

Eitt af því sem kom upp í þessu ferli var, að sá sem skar mig bakskurðinn hringdi hérna að kvöldi til tveimur dögum eftir bakskukrðinn og sagði að sér hefði dottið í hug að fara yfir þetta ferli og þá hefði hann rekist á að það hefði verið tekin þvagprufa í einhverri af fyrstu heimsóknunum á Bráðavaktina og hún sýndi bullandi þvagfærasýkingu sem væri þá búin að vera ómeðhöndluð allan tímann, þetta yrði að meðhöndla strax. 
Þennan sama dag hafði hann verið í sambandi við mig um morguninn og vildi láta rannsaka blóðið til þess að athuga hvort það væri aukinn storkuþáttur í því út af fyrri sögu minni um blóðtappa í lungum eftir bakskurð.  Ég bara æjaði þegar hann sagði að ég ætti að fara niður á Bráðavakt í þetta því þeir gætu þá tekið myndir líka. Ég var nú ekki par hrifin af að þurfa að fara þangað í fimmtu ferðina mína. En það reyndist rétt vera að það var aukinn storkuþáttur og ég var send í lungnamynd þarna seinni partinn, en hún sýndi enga tappa. Þegar ég var búin að vera þarna allan daginn og komið að vaktaskiptum sagði yndislega stúlkan sem hafði verið læknir minn þarna yfir daginn, að hún væri að fara af vaktinni en hún vildi að það kæmi hrein blóðprufa áður en ég færi heim. Þessi storkuþáttur hækkaði stundum eftir aðgerðir en jafnaði sig síðan aftur og hún vildi fá úr því skorið hvort þetta hefði jafnað sig. Þetta gæti lengt viðveru mína þarna um svona rúman klukkutíma.

Nokkru eftir að hún fór þá kom stúlka og spurði hvort ég gæti ekki setið. Ég sagðist hafa verið skorin bakskurð í fyrradag, en gæti örugglega aðeins setið og spurði hvað hún hefði í huga.
Hún sagði þá að það færi að vanta rúm og það væri voða gott ef ég gæti beðið frammi á setustofu eftir blóðprufunni svo rúmið losnaði.  Úps!! En auðvitað sagði ég að það væri sjálfsagt að prufa.  Mér var svo fylgt með mitt hafurtask inn á setustofu þar sem voru tveir leðursófar og ekki annað til að setjast á.  Ég prufaði að setjast í annan sófann og fannst það myndi verða í lagi stutta stund þangað til ég yrði kölluð í blóðprufuna. Þetta var hinsvegar ekki í lagi nema í augnablik því þá fór ég að finna til í bakinu. Ég var með úpluna mína hjá mér og vöðlaði henni saman og setti við bakið, en það gekk engan veginn og ég gat ekki staðið upp úr sófanum.  Þegar leið á tímann þá komu þarna inn tveir karlar að bíða, en þeir töluðu bara pólsku og það þýddi ekkert að biðja þá að hjálpa sér. Svona sat ég í tæpan klukkutíma og undraðist að ég væri ekkert kölluð í blóðprufuna. Loks kom svo stúlka í gættina og ég bað hana að bjarga mér. Ég væri bara alveg búin að vera á þessu. Hún kom þá með stól og hún fór en ég prufaði að sitja á honum, en mér leið orðið svo illa að ég var bara alveg búin. Ég gat staðið upp af stólnum og fór fram fyrir og fann stúlku, sem sagðist sjá að ég yrði bara að komast aftur í rúm.

Ég var svo að myndast til þess að leggjast í þetta nýja rúm þegar það kom læknir sem sagðist heita ……… og spurði hvert vandamálið væri. Ég vissi ekki alveg við hvað hann ætti en sagði að ég væri bara að bíða eftir nýju blóðrannsókninni sem ég hefði átt að fara í áður en ég útskrifaðist.Hann sagði að það væru allar rannsóknir búnar á mér og ég skyldi bara fara heim. Ég ítrekaði þá þessa blóðrannsókn sem hefði átt að gera, en hann sagði að það væri bara misskilningur, það hefði verið önnur Ragna þarna sem hefði átt að rannsaka frekar blóðið í, það ætti ekkert við mig og ekkert meira sem ætti að rannsaka hjá mér. Mér fannst þetta mjög undarlegt og mér fór strax að líða mjög illa í návist hans. Ég spurði af hverju ég hefði þá verið látin bíða sitjandi í sófa í langan tíma inni á setustofu með nýskorið bak og spurði hvort ég hefði þá bara gleymst þar. “Nei nafnið þitt er nú ennþá á töflunni hjá okkur.”  Á þessum tímapunkti og í ljósi alls þess sem á undan var gengið í þessari veikindasögu minni, fann ég að ég var allt í einu alveg búin á því. Það helltist eitthvert vonleysi yfir mig og ég átti nú orðið erfitt með að tala því ég var að reyna að gráta ekki. Ég sagði eitthvað sem svo, að svo væri ég enn með allt ómeðhöndlað í sambandi við ristinn, hann væri gjörsamlega óvirkur að öllu leyti og enn væri ég send þannig heim. Þá sagði hann “Hvað ertu búin að gera í því, hefurðu borðað sveskur og apríkósur, svo þarf maður líka að hreyfa sig”.  Á þessum tímapunkti var ég bara farin að gráta, þó ég þurfi nú talsvert til og þeir sem þekkja mig vita að ég legg það ekki í vana minn að leggjast í grát ef eitthvað er að eða ef ég þarf að leggja áherslu á eitthvað. Þarna varð ég bara alveg mát. Ég sagðist vera búin að gera allt sem hugsast gæti til þess að koma þessu af stað bæði með lyfjum og mataræði það gerðist bara ekkert.  Þegar hann sá að ég var að brotna svona niður þá sagði hann, eins hrokafullur og áður “ Mér sýnist nú að það sé eitthvað annað að en hægðaleysi, hvað er það sem er að angra þig?  “Á ég ekki bara að  láta þig fá sterk svefnlyf svo þú getir sofið í nótt og jafnvel í næstu daga. Gott að fá langan og góðan svefn.  Hættu svo að taka verkjalyfin því þau eru stemmandi. “  Ég gat kjökrað að ég tæki aldrei sterk svefnlyf og það væri ekki það sem mig vantaði. Ég gat nú varla orðið talað því taugarnar voru að bresta og ég sagðist þá bara fara heim og myndi frekar reyna að tala við heimilislækninn í framtíðinni.  “ Já er það ekki bara fínt” var svarið sem ég fékk.  – 

———————–

Ég ætlaði nú alls ekki að setja þetta í bloggið mitt og meðal annars var það þess vegna sem ég hef ekki sett inn meiri fréttir.  En þar sem ég hef ekki verið beðin um að þegja yfir þessu og það er alltaf verið að spyrja mig um hvað hafi eiginlega verið í gangi og sagan er orðin svo löng að segja hverjum fyrir sig, þá varð það nú úr að ég setti þetta hérna inn. Þið vitið þá núna hvað er í gangi kæru vinir.

Ég vil líka að það komi fram að það hafa í raun allir, fyrir utan þennan eina lækni sem ekki getur talaist manneskjulegur og ég get ekki talið með öðrum læknum, verið afskaplega elskulegir við mig, þó svo að það hafi ekkert komið út úr því í sambandi við þetta ristilvandamál. Ég held að ferlið sé að verða svona vegna þessa þrönga ramma sem læknum er settur til rannsókna í öllum niðurskurðinum á spítölunum. Ég hef ekki trú á því að læknar almennt kjósi að vinna svona.  

Ég er búin að senda yfirlækni deildarinnar sjúkrasögu mína, sem ég var svo heppin að skrifa niður eftir hvert til þess að halda utanum þetta, og kvarta yfir þessum lækni, nokkuð sem ég hef aldrei á ævi minni þurft að gera, því ég hef aldrei hitt nema lækna sem hafa sýnt mér fulla virðingu.


Ég sendi svo bæði heimilislækninum mínum og Sjöfn meltingarsérfræðingi afrit af kvörtun minni og það er ástæða þess að að hún hefur verið í sambandi við mig alla helgina og hann kallaði mig til sín. Hún hringdi á laugardaginn, eftir að hafa séð póstinn frá mér og sagðist bara hafa setið agndofa yfir að lesa um þessa meðferð.

Jæja þá er sagan sögð. Vonandi gerist nú eitthvað gott á morgun því ég er að verða svolítið leið og þjökuð af þessu ástandi.  Þekkir kannski einhver öflugan pípara ?  það er eina úrræðið sem ég á eftir að reyna

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

8 Responses to Framhald á sjukrasögu.

  1. Ragna M says:

    Sæl nafna mín,ég á ekki eitt einasta orð yfir þessari meðhöndlun.’Eg var mjög ánægð að heyra að Sjöfn væri komin í málið.Hún finnur lausn. Svo finnst mér alveg frábært að þú skyldir senda sjúkrasöguna til þeirra sem málið varðar.Bestu kveðjur og bataóskir frá okkur í Huldugili.

  2. Erna frænka says:

    Batakvejdur
    Elsku Didda mín. Ekki á af tér ad ganga med tetta. Vodalega er leidinlegt ad heyra svona sögur um sjúkrakerfin og lækna, sem kanski eru útlærdir sem læknar en eru tad ekki í raun og veru. Madur hefur stundum heyrt, ad stór brjósklos geti trýst á taugar, svo ad tad gerast ýmiskonar kvillar, bædi á medan brjósklosid stendur yfir og á eftir. Vonandi er tetta allt ad læknast nú tegar adgerdin er búin og tú kanski færd medöl vid tessari bólgu í tvagkerfinu. Gott ad sjá, ad enn vottar fyrir smá húmor hjá tér, tó tú sért „prufud“ núna. BESTU BATAKVEDJUR elsku Didda mín, frá okkur. (Vil nú helst ekki leggja tetta „í belginn“, bara ad tetta renni vel i gegn).

  3. Ég á nú ekki eitt einasta orð yfir þessari frásögn. Ekki aukatekið orð. Ég óska þér góðs bata, og ég vil ekki trúa öðru en að nú sértu að komast á rétta leið. Fari svo þessi jálkur eins langt í norðausturvestur og hægt er. Fullur ristill er andstyggilegur, en fjandkornið það hlýtur að vera hægt að tæma hann með einhverjum ráðum. Gangi þér vel mín kæra.

  4. Stefa says:

    Elsku Ragna,

    ég get ekki lýst því hversu mikla samúð þú átt hjá mér. Mér finnst þessi meðferð á þér hrein hneysa og skil ekki afhverju þú hefur þurft að ganga í gegnum þessa hringavitleysu alla saman.

    Það er eitt að þurfa að bíða í eitt og eitt skipti á slysó þegar eitthvað bjátar á, en að þurfa að koma í síendurteknar rannsóknir sem enginn má vera að að klára finnst mér hreinlega orðið slúbbertaháttur!

    Gott hjá þér að láta vita hvurslags meðferð þú hefur fengið því svona á ekki að líðast.

    Mér dettur strax í hug að læknirinn sem kom svona fram við þig heiti Theodór – það er alþekkt á bráðamóttökunni að þar fer fær læknir en algjörlega vanhæfur í mannlegum samskiptum.

    Gangi þér vel í bataferlinu – þetta tekur enda um síðir :o)

    *Knús*
    Stefa

  5. Svanfríður says:

    Jahérna elsku Ragna mín.Ég segi eins og aðrið að ég á ekki til eitt aukatekið orð yfir framkomu læknabálksins við þig.Ég vona bara að fundið verði út hvað hrjáir ristilinn og að þú verðir heil heilsu bráðlega.Knús á þig.Svanfríður.

  6. Ragna says:

    Stefa mín, bara svo rétt sé rétt, þá heitir þessi læknir ekki Theodor.

  7. Ragna says:

    Æ hvað þið eruð yndislegar allar og ég þakka fyrir góðu kveðjurnar sem ylja sálartetrinu. Það er svo gott að fá svona góða strauma.

  8. Unnsteinn litli frændi says:

    En hvað það er leiðinlegt að lesa þetta 🙁 Ég vona að þetta fari nú að lagast elsku Ragna! Ég reyni nú að koma við í Febrúar, svona þar sem ég verð á landinu í nokkra dag. Sendi þér strauma.

Skildu eftir svar