Kirkjuferð og út að borða.

Já ,ég dreif mig í morgun í messu hjá séra Gunnari hérna í Selfosskirkju. Það er alltaf gott að fara í messu og ég sakna virkilega Áskirkju því það var svo gott að skreppa þangað og maður þekkti og kannaðist við svo marga þar.  Það var líka fínt í messunni í morgun en ég bara kann ekki við að hafa altarisgöngu í hverri messu eins og gert er hér. Þetta er kannski eitthvað sem venst en í Áskirkju var ekki altarisganga nema á skírdag og svo við fermingar. Ég kunni betur við það  þannig.


Eftir hádegið fórum við Haukur svo í meira en klukkutíma göngutúr. Við gengum  út að nýja skeiðvellinum þar sem fram fór verðlaunaafhending í ýmsum greinum hestaíþróttamótsins sem var núna um helgina. Á leiðinni heim skoðuðum við svo ýmsa fallega garða, en þeir eru margir hérna á Selfossi.


Þegar heim var komið bakaði Haukur vöfflur og við kölluðum á Guðbjörgu í kaffi. Krakkarnir voru þá ekki komnir heim frá pabba sínum. Þegar ég ætlaði svo að fara að finna til kvöldmat þá sagðist Haukur ætla að bjóða mér á Steikhúsið. Já það er óhætt að segja að það er sko dekrað við mann út í eitt. Ætli ég verði ekki orðin svo góðu vön þegar Haukur fer aftur að vinna að ég verði að ráða mér bæði kokk og vinnukonu. En, aftur að Steikhúsinu, ég mæli með matnum þar, en hann er alveg rosalega góður og gefur ekki eftir beztu stöðum í Reykjavík. Guðbjörg er stundum að vinna þarna þegar það er pabbahelgi, eins og t.d. í gær og hún segir að það hafi aldrei verið kvartað yfir matnum og yfirleitt biðji fólk um að skila kveðju til kokksins. Ég get vel skilið það eftir að prufa sjálf.


Nú ætla ég að horfa á Practice, en ég tók upp lokaþáttinn á meðan við fórum út að borða. Það endaði nefnilega svo svakalega spennandi síðast.


Ég læt því staðar numið núna.


 

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

Skildu eftir svar