Smá uppfærsla, á meðan ég bíð eftir annarri mynd í imbanum.

Jæja dagbók mín kær. Sólin heldur áfram að stika sín hænufet upp á himininn. Margt smátt gerir eitt stórt og skrefin hafa nú þegar lengt talsvert hjá okkur daginn. Nú er farið að birta upp úr klukkan níu á morgnanna og farið að vera bjart fram undir klukkan sex á kvöldin. Þetta segir okkur bara það eitt að vorið er ekki langt undan.

Hjá okkur hérna á suðvestur horninu hefur ekkert snjóað í vetur, heldur hefur veturinn verið alveg einstaklega góður og mildur við okkur Höfuðborgarbúana.  Ég hef nú verið svona öðru hvoru að óska þess að við fengjum aðeins hvítt á jörðina. Ekki hefur mér orðið að ósk minni fyrr en síðustu sólarhringa. Einhvers misskilnings hefur greinilega gætt milli mín og máttarvaldanna því ég bað aldrei um neitt mikið af snjó, bara svona aðeins föl. Um miðja viku fór hins vegar að snjóa, bara svona rétt aðeins eins og ég hafði óskað eftir, en einhver hefur sofnað á verðinum því það hefur haldið áfram að snjóa og þegar ég kom fram í morgun og leit út á svalir þá voru þær bókstaflega fullar af snjó og bílarnir hérna á bílaplaninu með myndarlega snjókúfa yfir sér. Það var gott að það skyldi vera laugardagur í dag, því bileigendurnir drifu sig út hver af öðrum til þess að moka út bílana sína, en það var hins vegar bara einn sem byrjaði á því að moka frá útidyrunum, stéttina fyrir framan og leiðina að sorpgeymslunni. Hver skyldi það nú hafa verið???

Ég hef gjörsamlega verið að mygla í og eftir veikindin mín, það er eitthvað svo erfitt að ná aftur kröftum að þessu sinni, en Þessi vika hefur þó verið einna best.

 Ég var svo ánægð í vikunni þegar Birgit vinkona mín hringdi og sagðist ætla að koma í heimsókn. Ekki var svo verra að hún kom með bunka af  Norsk Ukeblad sem hún færði mér. Alltaf svo gaman að kíkja á norska slúðrið.  Svo var saumaklúbbur í vikunni, en eitt af því sem bætir, hressir og kætir eru "stelpurnar" í saumó. Það hafa margir undrast að við skulum alltaf hittast hálfs mánaðarlega og fundist það allt of oft. En okkur finnst það ekkert of oft og okkur dettur ekki í hug að breyta því sem við höfum gert frá upphafi, eða í nærri 47 ár.

Ragna Björk, sem verður fjögurra ára í næsta mánuði, fór í hálskirtlatöku á fimmtudaginn. Það gekk allt vel og hún var svo dugleg. En það er svolítið erfitt að skilja af hverju maður má ekki fara út og leika sér í snjónum eins og hinir krakkarnir. Það bjargar þó að hún er svona dundari eins og mamma hennar var og þær mæðgur finna sér alltaf eitthvað til þess að gera skemmtilegt. Litli skæruliðinn í göngugrindinni á það hinsvegar til að koma á fullri ferð og keyra beint á kubbahús eða annað sem raðað hefur verið upp. Aldrei hef ég þó séð stóru systur vera vonda við þá litlu þó hún trufli stundum.

Ég les daglega auglýsingar um sól og sumar á suðrænum slóðum.  Nú eru þrjú ár síðan ég steig síðast upp í flugvél svo það fer að verða tímabært að drífa sig í gott ferðalag sér til heilsubótar og skemmtunar. Það er alla vega ljúft að láta sig dreyma. Annars vonum við auðvitað að sumarið verði gott því heimilið á hjólunum minnir á sig hérna úti og gefur góð fyrirheit um ferðalög um okkar ástækru fósturjörð.

Jæja best að kíkja aðeins á imbann og gá hvort fyrri myndin á þessu laugardagskvöldi er ekki að verða búin. Ég elska breska kímni, en amerískar dellumyndir, sem eiga að heita gamanmyndir hef ég ekki gaman af að horfa á.

Best að hætta hér og setja PUNKTINN.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

7 Responses to Smá uppfærsla, á meðan ég bíð eftir annarri mynd í imbanum.

  1. Er að ná mér niður eftir spilamennsku, og er því gasalega seint á ferðinni á veraldarvefnum. Að mygla er ekki skemmtilegt, en verra gæti það verið, svosem að böðlast áfram í hálku og ófærð. Kær kveðja úr mullandi snjókomu eftir dansiball í boði karlakórsins.

  2. Ragna says:

    Karlakórinn ykkar góði og þeir sem þar koma við sögu sjá til þess að fólk mygli ekki heima hjá sér. Vonandi hefur þér sofnast vært og rótt eftir þetta Guðlaug mín.
    Kær kveðja til ykkar í firðinum fagra.

  3. Katla says:

    Skemmtilegur punktur hjá þér varðandi moksturinn Ragna, og hvernig fólk hugsar, eða hugsar ekki. Sem fótgangandi vegfarandi finn ég líka að það er ávalt búið að ryðja fyrir bílaumferð strax, við hin megum vaða snjóinn, sem er svo sem í lagi í mínu tilfelli en mér verður oft hugsað til annara sem eiga hægara um vik en ég. Annars er ég hæstánægð með allan þennan snjó, maður hittir aldrei of oft góða vini og algerlega sammála þér með bíómyndirnar : )

  4. Anna Sigga says:

    Knús á þig Ragna mín!
    Ég skil þetta alveg með saumaklúbbinn 🙂 og um að gera að halda áfram svona skemmitlegum hittingi sem oftast og lengst. Vona að heilsan þín sé á mikilli uppleið, þú ert örugglega búin að taka út þinn skerf af svona veikindaverkefnum!!! Farðu vel með þig og knúsaðu dætur þínar, tengdasyni og barnabörn frá mér!

  5. Anna Sigga says:

    Knús og meira knús
    …og auðvitað knús á Hauk líka 😉

  6. Ragna says:

    þakka ykkur fyrir heimsóknirnar á síðuna mína. Ég skal skila bæði kveðjum og knúsum og sendi sama skammt til baka.

  7. Svanfríður says:

    Að hitta vinkonur sínar hálfsmánaðarlega í 47 ár er bara frábært!Mikið óskaplega er yndislegt að eiga vinkonur sem hafa fylgt manni í gegnum súrt og sætt. Góða skemmtun í næsta klúbb.

Skildu eftir svar