Allt komið í lag nema myndaalbúmin, sem komast í lag fljótlega.

Þetta var eins og flestir aðrir dagar mjög góður dagur. 

Í morgun fórum við Anna Björg og Fríða á nýjan stað til að ganga morgungönguna okkar, en að þessu sinni fórum við í Fífuna.  Það eru miklu fleiri sem ganga þar en í Kórnum, þar sem við höfum að mestu verið einráðar um staðinn fyrir utan skólakrakkana, sem eru að leik inni á sjálfum fótboltavellinum. Við erum líka í svo góðu sambandi við starfsfólkið í Kórnum, en það býður okkur alltaf upp á kaffisopa sem við setjumst með  í leðursófana og látum fara vel um okkur eftir puðið og við höfum meira að segja fengið Toblerone með kaffinu hjá þeim.  Ætli við höfum það ekki bara eins og kettirnir sem leita þangað sem þeim er gefið eitthvað gott að lepja. Sjáum til hvað við gerum í málinu, hvort við förum í Kórinn áfram eða Fífuna, eða skiptumst á að fara á þessa staði. 

Eftir að hafa í millitíðinni farið til Jakobs sjúkraþjálfara sem er aðeins að lappa upp á mig núna, þá hitti ég þær stöllur Önnu Björgu og Fríðu aftur og fór með þeim í Félagsstarfið á Vesturgötunni, en þar var á dagskrá  tískusýning og veislukaffi, eða ég átti ekki von á öðru en því.  Það reyndist hinsvegar vera fleira á dagskránni hjá þeim, því fyrst var samsöngur, og eftir tískusýninguna söng kórinn Söngfuglar fyrir gestina og svo endaði þetta á þessu fína balli.  Ég hefði sko dregið hann Hauk með ef ég hefði vitað þetta. Ég stóð í þeirri trú að þetta væri bara svona konuhittingur. Nú veit maður alla vega hvað hægt er að gera sér til skemmtunar á föstudögum um miðjan dag. 

Við ætluðum svo að fara að horfa á Sjónvarpið, en þar er lítið að hafa þetta föstudagskvöld. Útsvarið er búið og hvað fundu þeir svo í staðinn? Jú einmitt handboltaleik kvenna heilan leik, sem stendur til klukkan tæplega 10 í kvöld.  Þessvegna skellti ég mér nú bara í að setja þessar línur í dagbókina mína. 

 

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

Skildu eftir svar