Tónlistarnám af því góða.

Það var mjög ánægjulegt í vikunni að fara með Guðbjörgu og Oddi Vilberg í Iðnó, til þess að sjá og heyra Karlottu syngja með Sönglist, sem er söng- og leiklistarskóli Borgarleikhússins. Hún hefur verið að læra söng þar og á vorin eru haldnir tónleikar þar sem krökkunum er skipt í hópa og hver hópur sýnir söngleik.  Mér finnst þetta svo skemmtilegt og ekki spillir að hún stendur sig svo frábærlega vel, bæði í söng og leik. Þetta er ekki sagt bara af því að ég sé montin amma heldur fengum við að heyra það, bæði á miklu lófaklappinu og í hléinu þegar fólk kom til hennar og hældi henni fyrir hvað þetta hafi verið flott. 

Ég hef þá trú, að hvort sem unglingar ætla að leggja söng eða leiklist fyrir sig í framtíðinni, eða bara af því þeim finnst þetta skemmtilegt á þessum tímapunkti, þá sé þetta mjög þroskandi á allan hátt. Þetta tekur af feimni og gerir krakka frjálslegri og óhræddari við að koma fram og miðla til annarra. Það er líka viss ögun sem krakkar verða að temja sér í tónlistarnámi, því það þarf að finna tíma til að læra hlutverk og texta og mæta á æfingar.  Þetta er allt af því góða.
Ég vona svo sannarlega að hún hafi tækifæri til þess að halda áfram að syngja og spila því í því felst svo mikil gleði og ekki verra að hún gleður ömmu í leiðinni.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

One Response to Tónlistarnám af því góða.

  1. Katla says:

    Það var alveg frábært að sjá myndklippuna á fésinu hjá Guðbjörgu; hvílíkir hæfileikar sem stúlkan hefur!
    Gott að sjá að dagbókin er komin í lag.

Skildu eftir svar