Smá vangaveltur eftir helgina.

Mikið er skrýtin veðráttan þessa dagana.  Ýmist vor eða vetur, að ekki sé nú talað um ofsaveðrið sem var á sunnudaginn og búið að spá einhverju slíku á laugardag. Vonandi gengur það nú ekki eftir, því á laugardaginn verður nóg að gera í litlu fjölskyldunni okkar því Karlotta er að fermast næsta sunnudag. það verður því allsherjar flutningur á dóti og tertum. Verra ef þær fjúka út í veður og vind.  Það var svo slæmt veðrið á sunnudaginn að stórt gasgrill með gaskút hangandi á, kom fljúgandi einhvers staðar frá og lenti á bíl Guðbjargar og Magnúsar og skemmdi hann nokkuð. 

Við vorum í tveimur fermingarveislum um helgina, frá klukkan hálf tvö til hálf átta.  Annað með fólkinu mínu, þar sem ég var langömmusystir fermingarbarnsins og hitt með fólkinu hans Hauks, en þar var hann afabróðirinn.   Já nú er maður kominn í stjörnuflokk með öfum og langömmum.  Það er svo gaman að hitta fjölskyldur og vini og hvílíkur munur að gera það í fermingarveislum, í stað þess að hittast bara við jarðarfarir.
Það var orðið ansi hvasst þegar við vorum að fara á milli veislnanna en það var þó ekkert svo slæmt veður úti á Seltjarnarnesinu þar sem seinni veislan var. 
Ekki veit ég hvort máttarvöldin voru að refsa okkur með þessu roki fyrir að segja Nei við Icesave.  En svei mér þá, þá held ég ekki  að svo sé, því vitanlega ætlum við ekkert að hlaupast undan því að borga þó við vildum ekki  setja á þetta ríkisábyrgð og hafa opið í alla enda. Nú borgum við út úr þrotabúinu, en fullyrt var að til væri nánast fyrir skuldinni þar og svo sjáum við hvað út af stendur og tökumst á við það.  þetta fer allt vel að lokum.

Nú er best að koma sér að verki og hætta að hanga í tölvunni.  

 

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

3 Responses to Smá vangaveltur eftir helgina.

  1. Svanfríður says:

    Hæ elsku Ragna. Ég skoðaði myndirnar hjá þér úr færslunni að neðan og þær voru yndislegar en auðvitað var frökenin fallegust:)
    Hafðu það gott mín kæra:)

  2. þórunn says:

    Veðurfar og fleira.
    Ég fæ stundum hroll þegar ég opna myndavélarnar hjá Mílu og sé hvernig veðrið er bæði á Austurvelli og við Jökulsárlóna, en svo er nú sól og blíða á milli.
    Ég vona að fermingardagurnn hennar Karlottu verði bjartur og góður, þetta er hátíðleg stund jafnt fyrir fermingarbarnið, mömmur og ömmur. Ég hlakka til að sjá myndir frá þér eftir helgina.
    Bestu kveðjur og hamingjuóskir.

  3. Ragna says:

    Þakka ykkur fyrir kveðjurnar. Ég set örugglega færslu og myndir inn eftir helgina.

Skildu eftir svar