Páskar að baki.

Nú er annar í páskum og páskahretið að ganga yfir, eða við vounum að það gangi fljótt yfir, því það gengur á með hríðaveðri og kalt.  Ég var búin að ætla mér í kirkju um páskana, en vogaði mér bara ekki út í leiðindaveðrið svo ég hef ekki farið út fyrir dyr fyrr en seinni partinn í gær þegar við fórum í mat með fjölskyldunni út í Ásakór.

Það er ljúft að láta sig dreyma um gott sumar, því vitanlega er það á leiðinni þó það eigi eitthvað erfitt með komuna að þessu sinni.  Ég gjóa öðru hvoru augunum á húsbílinn sem stendur hérna á milli skúranna og ég læt mig dreyma um að aka um okkar yndislega fallega land í sumar, stoppa öðru hvoru á fallegum stöðum til þess að hita sér kaffisopa, elda góðan mat  eða fara í göngutúra.  

Ég er alltaf að hugsa um það öðru hvoru og hef sjálfsagt talað um það áður hvað það hefur orðið mikil breyting á öllu sem heitir tækni. Að hugsa sér hvað það er mikill munur að geta nú tekið myndir í hundraða- eða þúsundatali  án þess að greiða krónu fyrir framköllun og svo getur maður notið herlegheitanna heima á stórum skjá. Ég og fleiri hefðu líklega hrist hausinn og talið slíkt óráð, á þeim tíma þegar maður var að basla við slidesmyndirnar, ef einhver hefði þá sagt að slíkir galdrar væru í vændum.  Ekki er heldur lakara að nú er hægt að taka videomyndir með tali upp á pínulitlar vasavélar.  Já allt gerir þetta okkur lífið auðveldara og það er svo skemmtilegt að geta nú ferðast í huganum um leið og gömlu ferðalögin eru skoðuð aftur og aftur.  

Í dag er t.d. erfitt að gera sér í hugarlund að það sé stutt í slík ferðalög, en þá er bara að finna fram myndirnar í tölvunni og ekki lakara að eiga líka bloggfærslur af ferðalögunum og þá er auðvelt að fara inn í hugarheiminn og láta sér líða vel. 

Næst þegar ég skrifa færslu verður líklega komið rjómaveður og fuglasöngur. Þangað til  bið ég að heilsa ykkur kæru vinir sem hér kíkja öðru hvoru inn.  

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

2 Responses to Páskar að baki.

  1. Katla says:

    Þegar ég lít í gráan himininn líður mér ekki eins og sumarið sé komið, en ég veit það styttist og segi eins og þú; hlakka svo mikið til að njóta náttúrunnar okkar í veðurblíðunni. Hlakka líka til að lesa alla pistlana þína í allt sumar : )

  2. Ragna says:

    Þakka þér fyrir Katla mín að ætla að lesa pistlana mína, ef pistla skal kalla, því þeir eru nú orðnir svo fátæklegir og lítið í þá lagt.

Skildu eftir svar