Gömul tilfinning.

Það er stundum á sunnudagsmorgnum, þegar messan er að byrja í útvarpinu og ég er eitthvað að dútla, eins og núna þegar ég var að strauja nokkrar flíkur, sem gömul  bernskuminning hellist yfir mig.   

Ég upplifi sunnudagsmorgnana þegar ég var að leik fyrir utan heimilið mitt. Á sunnudögum var alltaf farið í sparifötin og hátíðablær yfir.   Ekki vildi maður fara langt frá til þess að koma ekki of seint í sunnudagsmatinn.   Já, hún er sterk þessi bernskuminning þegar ómurinn af sunnudagsmessunni heyrðist út um gluggan og ilmurinn af ávaxtagrautnum, sem settur hafði verið út í gluggann svo hann kólnaði aðeins, fyllti vitin og síðan ilmurinn af sunnudagsmatnum, sem oftast var steikt lambakjöt með tilheyrandi.  

Það fylgir þessari minningu einhver góð andakt.  Í mínum bernskuminningum virðist líka alltaf hafa verið sól og það finnst mér góð sönnun þess hvað ég átti yndislega barnæsku og hvað það var mikil hlýja og væntumþykja sem ég var umvafin.

Ég mátti til með að skrá þessa tilfinningu mína – kannski hef ég gert það oft áður, en dagbækur verða að þola það að sama tilfinningin geri vart við sig aftur og aftur. 

Ég bið ykkur vel að lifa.  Höfum það hugfast að búa börnunum okkar svo góða barnæsku að þau geti yljað sér við minningarnar um hana þegar þau verða fullorðin og gömul.  

 

——————————— 

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

2 Responses to Gömul tilfinning.

  1. Katla says:

    Ég hef ávalt notið þess að lesa færslurnar þínar þegar þú rifjar upp „gamla“ tíma. Mun halda því áfram alveg óháð því hvort þú hefur skrifað um það áður. Kær kveðja.

  2. þórunn says:

    Það er ómetanlegt að eiga góðar minningar, ekki síst frá barnæsku með góðum foreldrum. Þessi frásögn þín gæti næstum því verið komin frá mér, við höfum greinilega átt svipaða daga sem börn.
    Takk fyrir þessa færslu hún færði mig mörg ár aftur í tímann.
    Bestu kveðjur, Þórunn

Skildu eftir svar