Þriðji hluti Spánarferðarinnar – Stóra fjallaferðin.

Eins og fram hefur komið þá átti Haukur 70 ára afmæli á meðan við vorum úti. það voru allir að verða galnir af að reyna að finna út hvað hægt væri að gefa honum í afmælisgjöf og ég þar á meðal. Mér datt því í hug að kaupa einhverja fína dagsferð með Spænskri ferðaskrifstofu og bjóða honum svo út að borða þegar við kæmum heim. þetta gekk eftir og við fengum ferð með enskumælandi leiðsögumanni, en ferðin var frá klukkan níu um morguninn og við komum heim klukkan átta um kvöldið. 

Í hópnum voru aðallega Hollendingar og Belgar og við vorum þau einu sem þurfti að tala á ensku fyrir, en það kom ekki að sök því okkur var ekki sinnt neitt verr fyrir það.

Við skoðuðum fyrst gamla bæinn í Althea, sem er yndislegur listamannabær með þröngum götum og allt var svo rólegt og yndislegt þarna um morguninn. Það var rjómalogn og vitaskuld sólskin. Fararstjórinn sagði okkur að listamennirnir ynnu frá klukkan fimm á daginnn til klukkan fimm á morgnana þá svæfu þeir þangað til seinni partinn. Öðru hvoru færu þeir svo með listaverkin á markaðinn sem haldinn væri um helgar á bæjartorginu og þar seldu þeir listaverkin sín. 

Myndin hérna fyrir neðan er úr Althea. Á neðri myndinni sér aftan á fararstjórann okkar, sem var rosa flott skvísa og skemmtileg.

 

fjallaferdin1.jpg

Hér er önnur mynd frá Althea, sem sýnir útsýnið
og fleiri götumyndir. Mikið heilluðumst við af þessum stað.

fjallaferdin2.jpg 

Næsta stopp okkar var við foss nokkurn, en vatnið úr honum átti að vera svo heilsusamlegt að alls kyns kvillar áttu að læknast ef það væri drukkið.  Ekki veit ég um sannleik þess, en fararstjórinn var með flösku af Anislíkjör og hún byrjaði á því að hella því í glösin áður en við fengum lindarvatnið góða.  þetta var alveg ljómandi hressing.

 

fjallaferdin7.jpg 

 Næst lá leiðin  í Kaktusgarðinn í Algar, þar sem næsta mynd er tekin.
Takið eftir hvernig stórir kaktusar vaxa út úr veggnum.

fjallaferdin4.jpg 

 Síðan skoðuðum við fallega fossasvæðið í Algar. 
Sérkennilegt hvernig tréð sem Haukur stendur við óx upp úr steininum.

fjallaferdin5.jpg 

Næst var komið að því að skoða mikið safn leikfanga og listaverka sem safnarinn hafði bæði safnað og búið til, eins og t.d. modelin sem þar voru af merkum byggingum á Spáni. Á safninu voru einnig gamlir bílar sem hann hafði safnað og gert upp. Hann var búinn að vera að safna þessum gömlu munum í 70 ár auk þess sem hann vann að modelsmíðinni.  Í þessum fJallabæ voru líka litlar sprænur út úr löngum steinvegg. Mig minnir að fararstjórinn hafi talað um að þetta væru 250 sprænur, en þarna höfðu bæjarbúar sótt vatn sitt. Ég veit nú ekki hvort þetta  sést nógu vel á litlu myndinni neðst.

  fjallaferdin3.jpg

Við borðuðum svo síðbúinn hádegisverð á gamalli sveitakrá í Tarbena, þar sem mikið var af myndum af gömlum kommúnistaleiðtogum og ýmsu fyrirfólki sem á krána hafði komið. Þetta mun hafa verið mikil kommúnistakrá hér áður fyrr enda bar hún þess merki. 

  fjallaferdin6.jpg 

Eftir hádegisverðinn í Tarbena héldum við áfram í gegnum ýmsa bæi og upp háan fjallgarð sem mjór vegurinn hlykkjaðist uppeftir (Myndin af fararstjórunum er tekin þar).

Þarna uppi óx mikið af kryddjurtum sem gaman var að  finna ilminn af og smakka á, eins og t.d. Rosmarin og Timian svo eitthvað sé nefnt. þarna var mjög víðsýnt niður báðu megin. Við áttum að sjá yfir til Ibiza og Majorka, en það var mistur yfir svo við sáum það nú ekki.

þegar við komum niður fjallið hinu megin var haldið til vínsmökkunar í litlum bæ sem heitir Jalon, en svæðið þar er þekkt fyrir ávaxtarækt og víngerð. 
Síðan lá leiðin heim í gegnum ýmis þorp og bæi þar til við komum til Benidorm að nýju. 

Um kvöldið fórum við svo á Kínverskan stað og fengum okkur Pekingönd í Appelsínusósu, sem er okkar uppáhald. 

Þessa ferð fórum við þegar mjög var liðið á dvölina okkar svo ég læt hér með lokið að skrifa um Spánarferðina að þessu sinni.   

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

3 Responses to Þriðji hluti Spánarferðarinnar – Stóra fjallaferðin.

  1. Anna Bj. says:

    Gaman að sjá þessar myndir og lesninguna. Til hamingju með þetta allt. og afmæli Hauks.

  2. þórunn says:

    Afmælisferð
    Þetta hefur greinilega verið fróðlegur og skemmtilegur dagur, það er góð næring fyrir likama og sál að ferðast svona og sjá eitthvað nýtt. Takk fyrir ferðasöguna Ragna mín og bestu kveðjur til Hauks frænda, frá okkur Palla.

  3. Katla says:

    Þetta hlýtur að hafa verið jafn stórkostlegur dagur og myndirnar!

Skildu eftir svar