Vestfjarðarferð 1. hluti.

Eftir malbiki og rykugum þvottabrettum, undir sjó, yfir sjó og kringum sjó, yfir fjöll, í gegnum fjöll og kringum fjöll.  
Já, þetta er það sem við Haukur höfum verið að gera undanfarið. 

Þegar Haukur var búinn að gera húsbílinn kláran til sumarferða þá notuðum við okkur fyrsta sólardaginn til þess að skreppa í smá rúnt. Við ákváðum að sjá til þegar við kæmum í Mosfellsbæinn, hvort við færum áfram vestur eða færum Þingvallaafleggjerann eitthvað í átt að suðurlandinu.  Vesturleiðin var valin og fyrsti leggurinn lá að Meðalfellsvatni þar sem við kíktum til Bjarna bróður Hauks sem var í bústaðnum sínum.

Áfram ókum við síðan á þessum fallega degi og eftir smá kaffistopp í Hvalfirði enduðum við á Laugum í Sælingsdal þar sem við komum okkur vel fyrir á tjaldstæðinu og grilluðum okkur fína steik og röltum síðan aðeins um staðinn. Síðan var fljótlega lagst til svefns fyrstu nóttina í ferðalaginu enda orðið áliðið kvölds. 

Næsti morgun var eins fallegur og dagurinn á undan og í allri ferðinni vöknuðum við við sól og blíðu og sofnuðum í sól og blíðu.

Við vorum spennt að aka inn á Barðaströndina svo við fórum aftur af stað í kringum hádegið og fórum fyrsta legginn að Reykhólum. Við fengum mjög góða fræðslu um hátterni Æðarfuglsins og nytjar hans í Hlunnindasafninu á Reykhólum. Stúlkan sem tók á móti okkur var svo áhugasöm og hafði alist upp þar sem dúntekja var og vissi því vel af eigin raun um hvað málið snerist.  Mikið fannst mér falleg leiðin niður að Reykhólum og sérstaklega gamli bærinn sem varð á vegi okkar. 

Myndasyrpa frá fyrsta deginum.

vestfirdir1.jpg 

Ekki getum við nú hrópað húrra fyrir veginum um Barðaströndina því hann var á köflum alveg skelfilega vondur, en mikið er Barðaströndin falleg.  Á þessari leið ókum við yfir fjörð á brú, Gilsfjörðinn. Við ókum þetta í rólegheitunum og stoppuðum aðeins í Bjarkarlundi en héldum svo ferðinni áfram að Flókalundi þar sem við lögðum bílnum á tjaldstæðinu, grilluðum og borðuðum góðan kvöldverð úti í góða veðrinu og síðan sváfum við vært til næsta morguns.   Við fórum í smá göngutúr um morguninn en vorum svo spennt að aka yfir heiðina og sjá hvað biði okkar þar, að við fengum okkur snemmbúinn hádegisverð og lögðum síðan af stað.

Heiðin var frekar leiðinleg yfirferðar, en okkur lá ekkert á og fórum þetta í rólegheitunum. Það var gaman að koma niður að Dynjanda.  Við gengum nú ekki upp hlíðina að þessu sinni því við gerðum það í síðustu vesturferð, en þá komum við akandi úr hinni áttinni. Það var mikið af ferðamönnum þarna á planinu niðri og mátti þar sjá margvísleg farartæki því sumir komu á tveimur jafnfljótum, aðrir á reiðhjólum af ýmsum gerðum, vélhjólum, öllum stærðum af bílum með eða án tjaldvagna og fellihýsa og öllum gerðum af húsbílum. Það var líka gaman að sjá hvað fólk aðhafðist þarna. Sumir lágu undir hlöðnum vegg og voru að lesa, aðrir að klifra upp að fossinum, taka myndir, drekka kaffi, spjalla hver við annan og þar fram eftir götunum. Allir svo sælir og ánægðir þarna í sólskininu.  Erlenda konan sem var á litla "Happy Camper" bílnum við hliðina á okkur í Flókalundi og hafði komið til þess að fá hjá okkur mjólk því hennar var súr, vinkaði glaðlega til okkar þarna á planinu en þangað var hún komin á undan okkur. Ég segi og stend við það  Tilveran er dásamleg á svona ferðalagi þegar landslagið er alls staðar svo fallegt, sólin skín og allir eru svo glaðir og áhyggjulausir að sjá.  

 

 

Ég hef aldrei áður komið á Hrafnseyri. Við skoðuðum staðinn og fengum okkur svo kaffi og vöfflur í gamla bænum. Aldrei nokkurn tíman höfum við séð eins stórar og miklar vöfflur og ekki var rjóminn skorinn við nögl. Full stór glerskál af nýþeyttum rjóma og bláberjasulta  með og auðvitað var sultan úr berjum sem tínd voru í sveitinni.

Við ókum síðan áfram þangað til við vorum komin til Þingeyrar. Þar leist okkur svo vel á að við leituðum uppi tjaldstæðin og komum okkur fyrir. Síðan fórum við í sund og undum okkur vel þarna til næsta dags.  

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

One Response to Vestfjarðarferð 1. hluti.

  1. þórunn says:

    Þetta var skemmtileg frásögn hjá þér Ragna mín, mér fannst ég bara komin á staðina með ykkur. Mikið vorðuð þið heppin með veðrið, það munar öllu á svona ferðum.
    Bestu kveðjur úr Austurkoti.

Skildu eftir svar við þórunn Hætta við svar