Haustið komið.

Þá er komið að næstu árstíð hjá okkur – Haustinu.   þær eru svo yndislegar þessar árstíðir, hver með sínu móti. Nú er það haustið sem bankar uppá og þó enn vanti nokkra daga í að kominn sé september,  þá eru tré og runnar farin að skrýðast haustbúningi sínum og það er alltaf svo gaman að fylgjast með því hvernig sá búningur breytist frá degi til dags.  Börnin geta nú ekki lengur sofið fram eftir á morgnanna og gert svo það sem hugurinn stendur til það sem eftir er dags, því nú skal vaknað klukkan sjö og svo tekur skólinn við. Sem betur fer held ég að flest börn hlakki til skólans á haustin og njóti þess að fá að læra og búa sig þannig undir framtíðina, en því miður eru líka til þau börn sem líður illa og finna sig ekki í skólanum. Það er óskandi að hægt verði að koma til móts við þau börn og vekja hjá þeim áhuga á að mennta sig og þau læri að njóta þess sem allt það frábæra námsefni sem er í boði í dag hefur upp á að bjóða. 

Óteljandi námskeið og líkamsrækt er auglýst daglega og stendur það öllum til boða – reyndar þarf að eiga talsvert af peningum til þess að nýta sér það, en sem betur fer eru margir sem geta notað sér þátttöku í slíku.  Svo eru það blessuðu saumaklúbbarnir sem  fara í gang í september og  mikið hlakka eg nú til þess að hitta aftur "stelpurnar" eftir sumarið. 

Það er líka fleira sem fylgir haustinu, þessari skemmtilegu árstíð sem nú er að hefjast. Þessi gamla hvöt, að búa til eitthvað matarkyns til þess að eiga upp á veturinn býr nefnilega enn í okkur þó það sé vitanlega auðveldast að fara bara út í búð og kaupa. Við eigum flest gamla minningu um mæður okkar að búa til slátur og kæfu, gera alls konar berjasultur og rabbabarasultur, að ógleymdri krækiberjasaftinni, sem var ómissandi eftir lýsið, en þá fékk maður alltaf smá lögg af berjasaft. Heima hjá mér var mjög stórt gamalt koffort með loki geymt uppi á háalofti. Þetta koffort var reist upp á endann og pabbi hafði sett í það hillur svo þetta varð eins og vænn skápur, þarna var  sultan og saftin geymd því þarna var kaldast og mamma hafði þá trú að betra væri að geyma þetta bæði í myrkri og kulda. 

Mér finnst svo skemmtilegt að í dag skuli ungar konur enn hafa áhuga á því að gera sultur og jafnvel að  búa til slátur. Við þurfum að halda fast í þessar gömlu hefðir því þetta er jú stór hluti af meinningu okkar.

 

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

4 Responses to Haustið komið.

  1. Katla says:

    Mikið er ég sammála þér um að hver árstíð er yndisleg með sínu móti og engin eins. Gerir þú saft eins og mamma þín?

  2. Ragna says:

    Nei Katla mín ég geri það nú ekki. Mér finnst þurfa fleiri í heimili til þess að slíkt borgi sig. Ef einhver er svo góður að tína handa mér ber, því ég get ekki beygt mig sjálf til slíkrar iðju, þá frysti ég berin og þá er tilvalið að setja þau með öðru í „boost“ eða út á skyr.

  3. Bestimann fer í ber í fyrramálið því saftlaust verður bærinn ekki. Kæfugerðin búin og mikið hvað hún góð. Nú ber bara sultan eftir. Mætti halda að við værum 13 í heimili, en þetta er gaman með kærri kveðju.

  4. þórunn says:

    Haustið
    Þetta var ekta haustpistill hjá þér, einmitt svona man ég eftir haustverkunum hjá mömmu. Hérna geri ég nú mest af sultum og eplagrautum, engin kæfa, slátur eða þessháttar. En nú verð ég að sitja aðeins á mér, veit ekki hvað við verðum hér lengi og þegar kemur að því að flytja verður víst nóg af dóti til að taka með sér, þó ég verði ekki með haug af sultukrukkum. Bestu kveðjur.

Skildu eftir svar við Guðlaug Hestnes Hætta við svar