Í vikulokin.

Þetta hefur verið mjög góð vika, – eru þær það ekki flestar??? Við Haukur höfum verið dugleg að fara í langa göngutúra og í þeim ferðum okkar höfum við tekið eftir því að vorið er bara rétt handan við hornið.  Allur gróður er mjög að taka við sér og alltaf að bætast raddir í fuglasönginn. Það hefur líka ýmislegt fleira skemmtilegt verið að gerast sem ég segi frá seinna.


Við skruppum austur í Sælukot í gær bara svona til að fá okkur bíltúr í góða veðrinu en eins og oft gerist nú á okkar landi þá fór að rigna og rigndi meira og meira eftir því sem við nálguðumst svo ekki varð nú um neina útiveru að ræða. Við gerðum mjög stuttan stans, fengum okkur ekki einu sinni kaffi enda var kalt inni og okkur fannst ekki taka því að fara að hita upp.


Í gærkvöldi drifum við okkur svo á þetta fína harmonikkuball í Básum. Eins og venja er þegar harmonikkuböll hafa verið í Básum þá koma allar helstu gömludansafríkurnar úr Reykjavík. það er alltaf gaman að sjá og hitta það lið. Ballið byrjaði klukkan níu og við vorum sko mætt nokkrum mínútum fyrir og vorum svo heppin að koma á undan rútunni úr Reykjavík. Við svona rétt náðum að leggja bílnum og komast inn á undan þeim og ná okkur í gott borð.  Þetta var hörkuball en við náðum samt ekki að dansa nema í 3 1/2 tíma þá var beinið á löppinni á mér alveg gjörsamlega að drepa mig og ég hætt að ná að bíta á jaxlinn lengur.  Við vorum komin hérna heim fyrir eitt og þá var fínt að leka útaf í lazyboyinn og fá sér sherrystaupið sitt. Verðlaunin sem ég fæ alltaf eftir að hafa drukkið svona þrjá til fjóra lítra af vatni á ballinu. Ég fer nefnilega ekki ofanaf því að betri dansdrykkur en gott íslenskt vatn fyrirfinnst ekki í víðri veröld. En mikið er nú gott að fá sér sherrýstaupið þegar meður kemur heim.


Dagurinn í dag hefur nú verið einstaklega fallegur. Við löbbuðum við hjá Guðbjörgu í göngutúrnum í morgun en hún var um það bil að leggja af stað til að sækja börnin til pabba síns og bruna síðan til Akureyrar til að vera þar um páskana.  Haukur fór svo í bæinn eftir hádegið en hann er að byrja að vinna núna á miðnætti. Það greip mig hvílíkt eirðarleysi eftir að allir voru farnir í burtu. Þá datt mér í hug að fara og sníkja mér kaffi hjá henni systur minni. Þegar ég sá að bíllinn þeirra var ekki heima, þóttist ég viss um að þau væru í bústaðnum svo ég ákvað að fara upp í Grímsnes í bíltúr því ég var sko alveg viss um að þau væru þar í góða veðrinu, en ég greip í tómt. Eftir að ég kom heim úr bíltúrnum fann ég að eirðarleysið hafði minnkað svo ég tók ég mig bara til og kláraði bútasaumsveggmynd sem ég hef verið að dunda mér við. Í kvöld hef ég svo setið dottandi yfir sjónvarpinu. Verst að ég er búin með bókina sem ég var að lesa. Ég ætla sko á bókasafnið á morgun og gá hvort þeir eiga ekki fleiri bækur eftir Noru Roberts. Ég ætla að lesa allt sem hún hefur skrifað.


Ég man ekki eftir fleiru og lýk því pistlinum hérmeð.


 

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

One Response to Í vikulokin.

  1. afi says:

    Tómleiki
    Þetta getur verið skrítin tilfinning tómleikinn og eirðarleysið. Í nokkur ár unnu bæði afi og amma vaktavinnu.
    Þegar afi var að vinna var amma í fríi og öfugt. afi fékk oft þá þessa tilfinningu einkum um helgar.
    Nú eru bæði komin á sama ról.
    Með sama vinnutímann.

Skildu eftir svar