Að eiga góða vini.

Eitt af því sem fylgir haustinu er að ýmsir vinahópar vilja hittast, saumaklúbburinn fer í gang eftir sumarið og við sem unnum saman ætlum að hittast og svo ætlum við að hittast þrjár vinkonur sem hittumst nú alltaf öðru hvoru á hverri árstíð. 

Venjulega dreifist þetta nú aðeins á haustið, en nú bregður hins vegar svo við að allir þessir hópar hittast núna í vikunni og sá fyrsti, saumaklúbburinn, kemur saman á morgun.

Það er svo gott og mikilvægt að eiga svona vinahópa og mér þykir svo ósegjanlega vænt um þessar konur allar og hlakka mikið til að hitta þær.

Gamli góði saumaklúbburinn okkar er alltaf samur, en nú hefur ein af okkar fyrstu vinkonum kvatt þennan heim. Hún hefur búið í Bandaríkjunum í fjöldamörg ár en þó alltaf komið, ég held ég megi segja árlega, til þess að hitta okkur.  En svona er lífið og enginn deilir við dómarann í leiknum.  Það eru til stórir og fjölmennir vinahópar, en svo eru líka þessir litlu ljúfu og notalegu vinkonuhittingar sem ég met svo mikils.  Ég hlakka því óumræðanlega mikið til vikunnar sem nú er að byrja og það verður gaman að fletta dagbókinni og sjá að það er einhver skemmtilegur hittingur nánast á hverri blaðsíðu því það bætist við að á föstudaginn verður litla Freyja hjá okkur og það er alveg dásamlegt að fá öðru hvoru barnabörnin til sín. 

Í vikunni á eftir tek ég líklega lífinu með meiri ró því þá fer ég inn á spítala, líklega í einhverja daga, í smá krukkerí sem ég hef veið að bíða eftir og svo jafna ég mig í rólegheitum heima. Eftir það verð ég síðan margefld í áframhaldandi hitting út og suður. 

Nú líður að miðnætti og best að fara að koma sér í rúmið.

 

"ENGINN GETUR VERIÐ HAMINGJUSAMUR VINALAUS"

 

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

Skildu eftir svar