Sigurrós í heimsókn og fermingarveisla í dag.

Ég skrapp í bæinn á þriðjudaginn og sótti Sigurrós en hún var búin að ákveða að vera í tvær nætur hjá mömmu. Ég var komin til Sigurrósar um hádegi og við ákváðum að skreppa inn í Glæsibæ svona í leiðinni austur. Ég hef nefnilega ekkert komið í Glæsibæ eftir breytingarnar og þetta er nú einu sinni staður sem maður kom á oft í viku á meðan maður bjó í Kleppsholtinu svo mig langaði að sjá breytingarnar þar. Þetta er mjög fínt allt saman. Svo er komið þetta líka fína veitingahús eða réttara sagt Konditori. Við fengum okkur súpu dagsins sem var fín og mjög gott nýbakað brauðið með. Við brunuðum svo hérna austur í sveitasæluna svo ég yrði ekki of sein í sundleikfimina.  Á miðvikudeginum vorum við svo bara í innanbæjarstússi. Fórum á bókasafnið og versluðum í matinn. Um kvöldið elduðum við svo lambalundir og fengum okkur rauðvínsglas með og horfðum svo á breska mynd Persuation eftir Jane Austin en við elskukm þessar gömlu bresku myndir og þessi er í anda Sense and Sensibility og Pride and Prejudice sem eru allar jafn frábærar. Guðbjörg hefði nú þegið að horfa með okkur en í þetta skipti var hún víðsfjarri að gera miklu skemmtilegri hluti. 


Ég nýt þess og nýti mér að hún Sigurrós mín er tölvuvædda dóttirin því það er alltaf eitthvað sem ég kvabba í henni þegar hún kemur. í þetta sinn var það að kenna mér á nýju myndavélina mína því ég bara nennti ekki að fara í gegnum þennan hnausþykka tæknilega leiðbeiningabækling sem fylgdi með vélinni. Ég bara veit ekki leiðinlegra. Svo þurfti ég líka að læra að setja af myndavélinni inn í tölvuna.  Sigurrós var nú ekki lengi að gera leiðbeiningar fyrir hvorttveggja sem voru þó ekki lengri en svo að vera sitt hvoru megin á A4 blaði, en enski hlutinn í bæklingnum er upp á 53 síður.  Það kemur í ljós hérna hvort mér hefur tekist þetta eftir leiðbeiningunum því ég er með myndir á tveimur stöðum hérna á síðunni. 


Fermingarveisla í dag.


Í dag fórum við svo í bæinn til þess að mæta í fermingarveislu Guðjóns Árna. Veislan var haldin í Safnaðarheimili Grensáskirkju og var allt fallega skreytt og veitingar mjög góðar.  Það er alltaf svo gaman að koma í svona veislur og sérstaklega var gaman í dag að hitta systkinabörnin sín.


Ætli ég fari nú ekki að ljúka þessu og koma mér í rúmið og byrja að lesa bókina sem ég tók á bókasafninu í gær. Það er að segja ef ég lognast ekki útaf á fyrstu blaðsíðu. Svo er ég mikið að hugsa um að skreppa í messu í fyrramálið þó það verði auðvitað aldrei eins og hjá honum Árna Berg mínum í Áskirkju. Maður er nú annars óskaplega vanafastur. Ég hef ekki ennþá fundið mig í messunum hérna á Selfossi. Ég fer að halda að Guð haldi sig í Áskirkju á sunnudögum því þar hef ég fundið best fyrir honum hjá séra Árna Bergi.


——–

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

Skildu eftir svar