Páskar og eftir páska

Jæja, þá eru nú páskarnir liðnir og þessir venjulegu dagar teknir við. Mikið er maður nú búinn að borða mikinn og góðan mat. Við getum hins vegar verið ánægð með það að við létum páskaeggin alveg eiga sig. Keyptum ekki einu sinni páskaegg til þess að fá málsháttinn. Það vill nefnilega svo til að okkur þykir hvorugu gott súkkulaðið í þessum eggjum. það er sko bara sérstakt dökkt súkkulaði sem freistar okkar svo við ákváðum bara að láta þetta eiga sig.


Síðdegis á laugardag kom Loftur og fjölskylda aðeins í dyrnar. Þau voru að koma úr Sælukoti á leið í matarboð í bænum og voru að sýna okkur nýja hugmynd í sambandi við stækkunina á bústaðnum.  Það verður mjög spennandi þegar þessi stækkun verður komin á Sælukot og rafmagn og hiti og allt það.


Á Páskadag komu Guðbjörg og Co í mat um kvöldið þegar þau komu að norðan. Á annan í páskum borðuðu svo Eiríkur tengdasonur Hauks og Dana María með okkur. Í dag þegar við vorum að koma úr göngutúrnum og vorum að opna húsið renndi bíll upp að húsinu en það voru Jóa Hauks og Óttar.  Mikið er nú alltaf gaman þegar gestir líta við. 


Á annan í páskum hringdi ungur herra og spurði hvort afi væri að gera eitthvað í skúrnum því þá langaði hann til að koma og horfa á hann. Afi var nú ekkert að gera í skúrnum en ungi herrann vildi nú samt koma. Karlotta hafði farið að hitta vinkonu sína svo hann kom bara einn.  Við skruppum m.a. út í Eden  og það var voða gaman hjá okkur.


Það var mjög gott að komast í vatnsleikfimina aftur eftir páskafríið og ekki verra að vita að hún Elísabet er að hugsa um að hafa okkur að einhverju leyti í tímum í sumar líka.


Ég læt svo fylgja nokkrar myndir sem ég hef verið að prufa að taka á nýju digital vélina mína. Ég er auðvitað ekki nógu dugleg að skjóta  nógu mörgum myndum. Það ku bara eiga að skjóta eins og af hríðskotabyssu og velja svo úr. Það hlýtur að koma upp í vana með tímanum að taka ótal myndir í stað þess að vera að taka svona eina og eina eins og maður er vanur þegar filma er höfð í vélinni.  Ég er þó alla vega farin að ná því svona nokkurn veginn að hlaða þessu inn á tölvuna og búa til ný albúm og svoleiðis. Þetta stendur sem sagt allt til bóta.


 

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

2 Responses to Páskar og eftir páska

  1. afi says:

    Matur er mannsins megin. En skelfing er fljótt að hlaðast utan á mann, en langan tíma að ná því af.

  2. Sigurrós says:

    Þetta eru fínar myndir hjá þér 🙂 Mmmm, hvað mig langar í girnilegu kökuna sem þið eruð með þarna á borðum… 😉

Skildu eftir svar