Nú stóð sko Sóltúnið undir nafni :)

Já það má nú aldeilis segja að sólin hafi skinið á okkur í dag. Allt frá því að við vöknuðum í morgun. Við byrjuðum reyndar útivist dagsins á því að fara í hjólatúr í morgun og síðan var bara flutt út á pallinn. Ég bakaði meira að segja vöfflur úti á palli í kaffitímanum, úr afgangsdeiginu síðan í gær.


Guðbjörg dreif mig svo með sér og krökkunum í sund í Laugaskarð í Hveragerði. Það er alveg frábært að fara þangað í sund öll aðstaða hvílíkt til fyrirmyndar og fullt af sólbekkjum, borðum og stólum til að nota í sólinni.  Haukur þurfti að skreppa á Stokkseyri á meðan við fórum í sundið og þegar við komum svo heim rúmlega sex þá var hann búinn að elda fíneríis fiskrétt handa okkur sem við borðuðum auðvitað úti á palli, nema hvað.  Guðbjörg fór síðan heim með krakkana og við sátum úti aðeins lengur og færðum okkur svo inn og settumst aðeins fyrir framan imbann. Annars nennum við varla að horfa á sjónvarpið í sumar. Pikkum bara út ef það er eitthvað sérstakt sem við viljum sjá.


Ef við hefðum ekki hjólað í morgun þá hefðum við örugglega farið út að ganga núna því veðrið er himneskt ennþá þó klukkan sé að verða hálf tólf. Það er oft svo gaman að fara út að ganga eða hjóla svona á kvöldin, en ég er með svo mikla strengi eftir hjólatúrinn í morgun og langa göngutúrinn í gær að ég ætla bara að gera teygjuæfingar og koma mér svo í bólið.


Læt ég því staðar numið hér

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

Skildu eftir svar