Byrjun á ferðasögu.

Já við skelltum okkur í ferð með Gigtarfélaginu og eldri borgurum þann 26. apríl. Það má segja að ég hafi ekki verið viss um að komast fyrr en daginn áður en allt blessaðist þetta nú og til Mallorca fórum við.  Ég hef aldrei heimsótt þessa eyju áður en Haukur hafði verið þarna fyrir 23 árum.


Ef ég á að lýsa veðrinu þá byrjaði það með kuldakasti fyrstu tvær vikurnar, síðan kom smá rigningarkafli, -á þessum tímapunkti flugu ein hjón heim í gegnum Kaupmannahöfn, þau sögðust sko ekki ætla að eyða lengri tíma í svona ógeðslegu veðri-  en viti menn eftir þetta fór að hlýna og það var mjög góð síðasta vikan af þessum 24 dögum. Allur tíminn var hinsvegar í okkar huga mjög góður, bara misgóður. Maður bara klæddi sig vel meðan kuldinn var, í síðar buxur og öll þau hlýju föt sem maður hafði með sér. Haukur var svo heppinn að finna þessa líka fínu flísfóðruðu úlpu á útsölu og var heldur rogginn með sig. Annars var ekkert  í búðunum nema hlírabolir og sólföt. Sem betur fer gátum við haft þann hita á íbúðinni hjá okkur sem við kusum.  


Við vorum mjög dugleg að fara í göngutúra og fórum nokkrum sinnum með strætó til Palma til að skoða okkur um þar og í eitt skiptið, þegar við vorum búin að skoða fallegu dómkirkjuna í Palma þá gerðum við okkur lítið fyrir og gengum meðfram ströndinni alla leið heim á hótel. Við vorum í rúma þrjá tíma á leiðinni. Það er gangstígur alla leiðina svo það var mjög þægilegt að ganga þetta. Það var frekar léttskýjað þennan dag og svalt, alveg ákjósanlegt veður fyrir slíkt afrek. Ég held að ferðafélagar okkar trúi því ekki enn að við höfum gert þetta, fannst þetta heldur ótrúlegt en satt er það samt. Ég verð nú að játa að næstu dagana á eftir fannst mér sérstaklega erfitt að ganga niður tröppur, skárra að fara upp, Haukur hinsvegar fær aldrei strengi og gæti gengið svona á hverjum degi án þess að finna fyrir því. Þær eru svona flallageiturnar frá Borgarfirði eystra, vanar að hlaupa í fjöllunum frá blautu barnsbeini. 


Við fórum svo auðvitað í dagsferðina þar sem m.a. eru skoðaðir Drekahellarnir, lögðum af stað um morguninn í rigningu og þungbúnu veðri, það sást ekki til fjalla á leiðinni en viti menn eftir að við skoðuðum Drekahellana þá fengum við þetta fína keyrsluveður á leiðinni heim og gátum skoðað öll fjöll nær sem fjær. Fararstjórinn okkar, Skagamaðurinn Kjartan Tjörvi Sigurðsson er líka svo frábær að þó að ekkert hefði stytt upp þá hefði ferðin samt verið skemmtileg. Kjartan er mjög fróður og segir svo skemmtilega frá. Svo laumaði hann auðvitað líka að okkur bráðfyndnum sögum af Skaganum. Mér fannst líka svo frábært að hann byrjaði alltaf ferðirnar á einhverri fallegri vísu eða góðum orðum í veganestið eins og hann kallaði það og kvaddi okkur ætíð með sama hætti að ferðalokum.


Við vorum nú búin að reikna með því að í þessari vorferð yrði harmonikkuleikari og við gætum snúist í nokkra hringi í polkum, rælum og völsum eins og við höfðum heyrt tengdamömmu og Ingabjörn tala um í sínum „grákollaferðum“ eins og þau kalla þessar vorferðir, en enginn var spilarinn og lítið um dansmúsik. Við fundum þó í restina lítinn þýskan bar rétt hjá okkur þar sem var spiluð mjög falleg tónlist og var svoldið hægt að dansa þar. það var líka dansað á hótelinu á laugardagskvöldum en þessi spænska tónlist er bara, að okkar mati, svo leiðinleg til að dansa eftir. Við gerðum samt okkar besta til að norfæra okkur hana, höfðum bara í huga að „hafa skal það sem hendi er næst en hugsa ekki um það sem ekki fæst“.


Ég er nú varla byrjuð á ferðasögunni en læt þetta þó duga í dag. Best að vera þæg og sitja ekki of lengi í einu svo ég verði ekki send aftur til Mallorca (þó það hafi nú alls ekki verið slæmt) eða eitthvað ennþá lengra.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

3 Responses to Byrjun á ferðasögu.

  1. Sigurrós says:

    En voru harmonikkudiskarnir ekki með í ferðatöskunni??

  2. Nafnlaust says:

    Jú Sigurrós mín en það mátti bara hvergi nota þá. Hótelið leyfði það ekki 🙁 Skemmtanastjórinn hafði heldur engar ráðstafanir gert til þess að finna pláss svo fólk gæti dansað.

  3. afi says:

    Lundarfarið
    Það sem skiptir mestu máli í svona ferð er lundarfarið og hafa gaman af þessu hvernig sem viðrar. Taka því sem að höndum ber. Allt vol og væl skemmir bara fyrir.
    Mættum við fá meira að heyra.

Skildu eftir svar