Grænfáninn móttekinn.

Mikið er nú yndislegt þegar veðrið er svona gott eins og í dag, að ekki sé nú talað um þegar eitthvað stendur til utanhúss.  Mér var boðið að koma með á leikskólann Álfheima í dag á vorhátíð og til að fagna því að leikskólinn var að fá afhentann alþjóðlega Grænfánann. Það hefur verið mjög skemmtilegt að fylgjast með því sem leikskólinn er að gera í umhverfismálum en fánann fá þeir fyrir sína vistvænu stefnu. Ég hef heyrt margar sögur barnabarnanna um skógarferðir þeirra og einnig skoðað í heimsóknum mínum á leikskólann ýmislegt sem er afrakstur skógarferðanna.


Í dag voru sem sagt mikil hátíðarhöld sem haldin voru úti á leikskólavellinum í blæjalogni og sól. Ýmsir héldu ræður, m.a. leikskólastjórinn og bæjarstjórinn, sem afhenti stóran blómvönd. Síðan afhenti fulltrúi menntamálaráðuneytisins Grænfánann. Ég heyrði því miður ekki mikið af því sem sagt var, en gaman hefði verið að heyra meira um þetta merkilega verkefni sem þarna hefur verið unnið. Það sem gerði að ég heyrði ekki var í fyrsta lagi vegna þess að enginn hljóðnemi var notaður og í öðru lagi vegna þess að börnin sem þarna voru í sínu venjulega leikumhverfi héldu áfram að leika sér og voru ekkert að velta því fyrir sér hvort einhver væri að hlusta á einhvern vera að tala úti í horni. Ég held samt að ég hafi náð því að þetta væri aðeins í annað skipti sem leikskóli fengi þessa alþjóðlegu viðurkenningu.


Eftir að fáninn var afhentur var hann dreginn að húni. Síðan var öllum gestunum boðið til pylsuveislu. Krökkunum var svo boðið að fara á hestbak sem var hvílíkt gaman.


Ég set hérna inn myndirnar sem ég tók, ef einhver hefur gaman af að kíkja á þær.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

One Response to Grænfáninn móttekinn.

  1. afi says:

    Þetta hefur verið virkilega gaman.
    Hafðu ekki áhyggjur af ræðunum, orð gleymast en lifandi stund lifir í minningunni. Þetta verður börnunum án efa bæði lærdómsrík og skemmtileg minning.

Skildu eftir svar