17. júní.

Gleðilega þjóðhátíð!


Alltaf finnst mér jafn gaman að taka þátt í hátíðarhöldum á 17. júní. Ég held það sé vegna þess að það er ennþá svo mikið eftir af barninu í mér. Það sama má segja um jólaböllin en þau eru ómissandi.


Það var ekki amalegt að líta út þegar ég vaknaði í morgun. Glampandi sól og blíða. Mitt fyrsta verk var að kveikja á gömlu góðu „gufunni“ og síðan fylgdist ég með hátíðarhöldunum á Austurvelli í Sjónvarpinu. Eftir hádegið trommaði ég svo í skrúðgönguna. Oddur Vilberg hélt fast í hendina á mér alla gönguna. Nokkrum sinnum heyrðist “ Amma, ég er svo þreyttur í fótunum“ en stubburinn harkaði nú af sér og kláraði gönguna. Síðan hófst skemmtidagskráin á Miðgarðsplaninu. Karlotta var nú heldur betur hissa þegar í ljós kom að það var hún Sólrún kennarinn hennar sem var fjallkonan að þessu sinni. Það var svo ýmislegt til skemmtunar og ágætis trúður fyllti upp á milli atriða með skemmtilegheitum, Karlakór Selfoss söng og von var á Bangsímon og Grísling þegar amma lét sig hverfa og dreif sig heim í Sóltún til þess að hafa til 17. júní kaffið. Guðbjörg, Magnús Már og krakkarnir komu svo nokkru seinna og svo kallaði ég á Eddu systur í kaffi en Jón var þá nýfarinn í Þrastarlund þar sem hann er með málverkasýningu í nýja veitingahúsinu.


Hátíðarhöldunum hjá okkur lauk svo með því að Magnús Már bauð okkur í Þrastarlund til að borða í kvöld og á eftir fórum við í smá skógargöngu áður en við héldum hver til síns heima.


Það var svo yndislegt hérna á pallinum þegar ég kom heim rétt fyrir klukkan átta í kvöld að ég settist út með bókina sem ég er að lesa og sat þar til klukkan að ganga tíu.


Þetta hefur verið mjög góður dagur en samt vantaði Sigurrós og Jóa sem mér finnst oft svo langt í burtu, en þau voru að byrja að pakka niður fyrir flutningana í Kópavoginn. Haukur var að vinna svo hann var fjarri góðu gamni, en annars hefðum við svo sannarlega skellt okkur í Tryggvaskála á Harmonikuball sem átti að vera þar í kvöld, en við verðum bara að bæta úr því á næsta 17. júní – eða fyrr 🙂

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

One Response to 17. júní.

  1. Sigurrós says:

    Við verðum með næst 🙂

Skildu eftir svar