Ýmislegt úr liðinni viku.

Það eru nú nokkrir dagar síðan ég hef skrifað í dagbókina mína. Sigurrós og Jói eru nú alveg flutt í Arnarsmárann, og búin að gera fínt hjá sér. Það eina sem ekki er komið í lag eru tölvumálin en þau bíða og bíða eftir því að OG Vodafone flytji fyrir þau símann og tölvutengingarnar. það er heilmikið mál fyrir Jóa sem heldur úti vefnum sem ég og fleiri úr stórfjölskyldunni  og nokkrir vinir þeirra nota.


Á fimmtudaginn kom ég í bæinn til þess að fara í jarðarför í Bústaðakirkju en Fjóla úr saumaklúbbnum var að missa manninn sinn hann Valda. Við vorum að tala um það vinkonurnar úr saumaklúbbnum eftir athöfnina, hvað við værum nú búnar að upplifa margt og deila hver með annarri á okkar 40 árum saman í saumó. Það eru yndislegir atburðir eins og fæðingar okkar eigin barna, skírnir og fermingar, síðan giftingar barna okkar, fæðingar barnabarnanna og allt sem viðkemur þeim. Svo eru það sorglegu atburðirnir sem eru ýmis konar veikindi og ástvinamissir. Allt þetta höfum við annaðhvort upplifað saman eða deilt hver með annarri í saumaklúbb.


Nú er Haukur kominn í sumarfrí og vitaskuld er hann kominn í Sóltúnið. Ég veit reyndar ekki hvað ég hef hann lengi hérna því að þeir bræður þurfa að fara austur á Borgarfjörð til þess að dytta að gamla Steinholti. Ég er ekki búin að ákveða hvort ég fer með strax eða flýg austur þegar verkinu lýkur. Það fer sjálfsagt eftir veðri og vindum.


Á morgun eiga Sigurrós og Jói von á pennavinkonu Sigurrósar frá Hollandi og hennar kærasta en þau verða hjá þeim í tvær vikur.  Ég vonast til að fá þau í heimsókn einhvern daginn. Vonandi verður veðrið gott svo við getum grillað hérna á pallinum.


Ætli ég hætti þessu nú ekki í bili  því við vorum að spá í að fara í smá göngutúr svona til að jafna sig eftir að horfa á úrslitaleikinn í fótbolta. Ég var nú svo sem ekkert mjög stressuð því allt stefndi í að mitt lið myndi sigra. Já, ég er mjög ánægð með að Grikkir unnu EM. Ég hef auðvitað ekki hundsvit á knattspyrnu, alla vega ekki til að tjá mig um hana, en ég hef einhverra hluta vegna haldið með Grikkjum frá því ég sá þá vinna fyrsta leikinn. Reyndar var ég skúffuð yfir að Hollendingar duttu út og kannski held ég ekki með Portúgölum þess vegna en Grikkir eru sem sagt mínir menn. – Svo spillir auðvitað ekki hvað þeir eru myndarlegir 🙂 Já maður hefur nú auga með því þó aldurinn færist yfir.


Nú held ég að best sé að setja punktinn.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

Skildu eftir svar