Sumar hér og þar.

Þetta hefur verið mjög fín vika og mikið var rosalega gott að fá einn rigningardag í vikulokin. Það var allt orðið svo þurrt bæði gróðurinn hjá okkur og líka ýmis vinnusvæði hérna í kring. Nú er ekki eins mikið ryk í loftinu og allt ferskt og fínt.


Nú er ég komin á fullt í vatnsleikfimina og jafnframt búin að fara í nokkra tíma hjá nýjum sjúkraþjálfara hérna á Selfossi sem lofar mjög góðu enda heitir hann Trausti. Vonandi þarf ég nú ekki lengur að aka til Reykjavíkur til að fá fullnægjandi sjúkraþjálfun. Við Haukur höfum líka verið mjög dugleg að ganga og hjóla þessa viku sem hann hefur verið heima. Alltaf gott að hafa einhvern sem drífur mann áfram þegar letin er við það að taka yfirhöndina.


Jóa hans Hauks, kom eitt kvöldið hérna til okkar í grillmat en síðan fór hún austur að Sólheimum til að heimsækja Hauk sinn sem átti afmæli þennan dag, en hann er að vinna þar í sumar. 
Við Haukur „gamli“ fórum hinsvegar í heimsókn til Eddu og Jóns í bústaðinn þegar Jóa var farin. Ég hafði með mér kassa með eldgömlum plöggum og myndum úr dánarbúi foreldra okkar Eddu. Ég fann t.d. leyfisbréf til handa Símoníu ömmu minni og Páli afa mínum sem veitti þeim leyfi til þess að fá að ganga í heilagt hjónaband. Okkur kom nú saman um það okkur Eddu að margt af því sem í þessum gamla kassa var ætti heima á byggðasafni eða skjalasafni. Það getur verið ótrúlega merkilegt að skoða svona gömul skjöl og jafnvel dagbækur sem forfeðurnir hafa fært.


En, aftur til nútímans. Við fórum eitt kvöldið í bíltúr og skoðuðum þá fáu sveitavegi sem við áttum eftir að skoða hérna fyrir utan Selfoss. Við höfum einhvern veginn ekki eirt yfir sjónvarpi þessi fallegu sumarkvöld heldur drifið okkur út. Við fórum t.d. eitt kvöldið í heilmikinn hjólatúr rétt fyrir klukkan ellefu. það var gaman að hjóla í kvöldkyrrðinni og svo var nánast engin umferð. Annars er ég nú ekki orðin eins hrædd við að hjóla og þegar ég byrjaði á þessu í fyrrasumar því þá var ég svo viss um að ég myndi steypast á hausinn. Kannski ætti ég samt að fá mér hjálm svona til öryggis. Guðbjörg er mjög hneyksluð á okkur að vera ekki með hjálma. Það er auðvitað alveg rétt hjá henni að maður tryggir ekki eftirá.


Fyrst ég nefni Guðbjörgu þá eru þau Magnús búin að kaupa sér draumahúsið sitt hérna á Selfossi. Það er bara einn hængur á, Guðbjörg er ekki búin að selja í Urðartjörninni, en stundum á maður bara um tvennt að velja, að hrökkva eða stökkva. Ég er nú ekki mikið fyrir að taka óþarfa áhættu í lífinu og oft er maður allt of varkár. Það er alltaf að flækjast fyrir manni þetta „en ef?“. Ég get samt alveg skilið að þau hafi bara tekið áhættuna því þau voru með hús sem hentar þeim mjög vel. Það er heldur ekki gaman að vera búinn að selja sjálfur og finna síðan ekkert sem mann langar í eða sem hentar. Alltaf vandi í sambandi við þessi íbúðaskipti.  Nú spyr maður bara alla sem maður þekkir hvort þá vanti ekki raðhús á Selfossi annaðhvort til kaups eða leigu.  Það væri nú ekki amalegt að flytja á Selfoss og kaupa sér fínt raðhús rétt hjá nýja skólanum fyrir sama pening og það kostar að kaupa íbúð í blokk í Reykjavík. Þið sem lesið þessar línur, hugsið nú málið, Ég gef Selfossi mín allra bestu meðmæli og ég hef orð nýja sjúkraþjálfarans míns, sem flutti úr Reykjavík fyrir rúmu ári, fyrir því að það sé alveg frábært að vera hér með börn.


Yfir í annað.


Í gærkvöldi vorum við búin að bjóða Lofti, Dröfn og tengdamömmu í fiskisúpu, en þau ætluðu síðan í Sælukot til að vera um helgina. Við kölluðum líka á Guðbjörgu og Magnús. Loftur hafði verið að spila golf allan daginn í Hveragerði og það var þá líka dagurinn til að spila golf. þau ausrigndi eins og hellt væri úr fötu allan daginn. Þegar þau komu hingað í matinn þá var Loftur sendur beint í heita sturtu því það var ekki þurr þráður á honum. Sem betur fer var hann með þurr föt með sér og við settum blautu fötin i þurrkarann á meðan við borðuðum. Vonandi hefur hann fljótt náð sér eftir volkið.


Sigurrós hélt upp á 25 ára afmælið sitt í dag og þau Jói héldu upp á það að vera búin að koma sér fyrir í Arnarsmáranum. Þetta var bara nánasta fjölskyldan og mjög notalegt. (nokkrar myndir)


Við tókum smá rúnt um borgina eftir afmælið og enduðum svo á því að fá okkur fisk á Grill-bar við Austurvöll og fylgjast með mannlífinu. Þjónninn rétti okkur matseðilinn og talaði við okkur á ensku og þegar ég svaraði á íslensku hálf kom á stúlkuna, sem sagði að við værum svo útlendingsleg svona brún. Ég sá nú eftir því á eftir að hafa ekki sagt henni að við kæmum nefnilega frá Selfossi en þar væru allir svona brúnir. ha, ha. (sólpallamynd til sönnunar)

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

Skildu eftir svar