Fyrsta götugrillið í Sóltúninu.

Loksins sýndi einhver þá framtakssemi að kalla saman íbúa götunnar til að grilla saman. Kærar þakkir þið sem hlut áttuð að máli.


Ég hafði komist að því að enginn yrði heima í minni lengju nema ég og var nú ekki par ánægð með þá frammistöðu nágranna minna. Ég ákvað hinsvegar að láta það ekki skemma fyrir mér og ég skyldi fara þó ég færi ein.
Ég var búin að vera svona á gægjum í glugganum til að gá hvort það myndu einhverjir mæta og þegar ég sá að fólk var byrjað að þoka sér í áttina þá dreif ég mig út með stólinn í annarri hendinni og poka með tilbúnum grillpinnum og öðrum nauðsynjum í hinni. Ég vissi að einhver góðhjartaður myndi eftirláta mér smá pláss á grillinu sínu. Það gekk vitaskuld eftir því  Viktoría og Páll á nr. 20 sáu aumur á mér og björguðu málinu.


Þrátt fyrir að fyrirvarinn væri ekki mikill, aðeins örfáir dagar og að margir væru í burtu þá tókst þetta fyrsta götugrill okkar bara mjög vel.
Það þarf sjálfsagt nokkur slík til þess ég læri nöfnin á öllum nýju nágrönnunum mínum en það verður örugglega tækifæri til þess því ég held að allir hafi verið ákveðnir í að þetta myndum við gera aftur og vonandi aftur og aftur, og aftur.


Ég tók nokkrar myndir auðvitað allt of fáar og ég athugaði ekki að taka mynd af þeim sem komu eftir að við vorum búin að borða.


Þetta var sem sagt mjög skemmtilegt kvöld og ef þokan hefði ekki lagst yfir svona mikil og köld þá hefði ég örugglega setið mun lengur. Eftir hitann undanfarið var manni nefnilega orðið hrollkalt þegar hitinn var kominn niður í 11°.  Ég fór heim um tíuleytið en þó nokkrir voru þá eftir á staðnum.


Ég segi bara kærar þakkir og ég hlakka til þegar við hittumst næst.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

Skildu eftir svar