Sunnudagur í eldhúsinu.

Í gærkvöldi var ég nokkuð ákveðin í að fara í kirkju en það varð nú ekki af því. Ég hafði nefnilega sest með moggann og varð hreinlega svo syfjuð að ég hélt að ég myndi sofna í messunni og því vissara að vera heima. Hinsvegar kveikti ég á útvarpsmessunni sem reyndist vera úr Bústaðakirkju. Ég var mjög hrifin af ræðunni hans Pálma en hann lagði út frá nýja laginu hans Bubba „Þessi fallegi dagur í dag“ . Alveg hreint ljómandi ræða.  Ég verð hinsvegar að segja að það truflar mig ósegjanlega þegar prestar tóna þannig að í staðinn fyrir drottinn…. þá syngja þeir hástöfum „drohohottinn séhe meheð yhiður og gehefi yhiður frihið“ og á öðrum stað var það „…..drohottinn vohor“. Ég veit að það er ljótt að vera að tala um þetta en kannski er ég bara svo góðu vön úr gömlu kirkjunni minni hjá honum séra Árna Bergi sem tónaði svo einstaklega vel alltaf. Mikið sakna ég þess nú að rölta ekki á sunnudögum upp í Áskirkju.


Þegar ég var að spá í hvað ég ætti nú að gera í dag þá átti ég um tvennt að velja eins og flesta daga. Annað var að láta sér leiðast og hitt var að gera eitthvað til þess að láta sér ekki leiðast.


Af fyrri reynslu valdi ég seinni kostinn. Ég ákvað því að skella mér í bakstur. Ég bakaði alls konar kökur og brauð svona til „að eiga“ eins og maður segir. Þegar síðan kom að því setja í frystinn það sem átti að geyma þá var í kökuskúffunni á frystiskápnum stærðar poki með niðursneiddum rabarbara sem ég átti eftir að sulta. – Já það minnir mig á að skreppa fram og hræra í – Jæja ég er komin aftur.  Ég sá sem sé þann kost vænstan að gera bara sultu úr rabarbaranum og hún er sem sé enn að sjóða núna.


Ég var svo heppin að Guðbjörg og Magnús Már litu inn í kaffi. Það er alltaf gaman að geta borið nýbakaðar kökur á borð.


Þegar ég er búin að koma sultunni í krukkur ætla ég hinsvegar að skreppa aðeins út að hjóla því veðrið er alveg dásamlega gott þó sólin skíni ekki í dag.  Ég veit svo fyrirfram að kvöldið verður rólegt og gott. Það kæmi mér ekki á óvart að ég eigi eftir að sitja sofandi fyrir framann skjáinn.


Ég fékk fréttir af Hauki, sem hefur það gott hjá Bojskovbúum.


Þar sem ég veit að kvöldið verður tíðindalítið þá lýk ég þessari færslu dagsins í dag.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

2 Responses to Sunnudagur í eldhúsinu.

  1. Sigurrós says:

    Mmmmmmm… ég hlakka til að koma næst í heimsókn 😉 namminamm!

  2. Alltaf jafn myndarleg!
    Gott hjá þér að ákveða seinni kostinn! Takk fyrir innlitið á mína síðu. Það er líka alltaf jafn gaman að lesa skrifin þín. Og skrifin um einveru þína í Sælukoti þar sem þú skrifaðir um kyrrðina, útsýnið og fjöllin færða huga minn á æskuslóðirnar! Farðu vel með þig. Kveðja, Anna Sigga

Skildu eftir svar