Borgarrölt með barnabörnunum.

Í morgun fór ég í langan göngutúr hérna vestur með allri á. Það er svo yndislegt að fara þessar gönguleiðir hérna rétt við dyrnar hjá sér þar sem maður er kominn út í sveit, og ekkert heyrist nema niðurinn í ánni og fuglasöngurinn, eftir að hafa gengið bara nokkur skref.


Um hádegið hringdi Guðbjörg og spurði hvort ég gæti skroppið með sér til Reykjavíkur og verið með krakkana í svona klukkutíma því hún þyrfti að taka þau hjá pabba sínum þar sem þau voru um helgina og síðan ætti hún að vera á fundi í bænum svo það væri vel þegið ef amma gæti gert eitthvað með þeim á meðan. Jú, amma var nú meira en til í það.  Ég tók við þeim af pabba sínum neðarlega á Laugaveginum og við röltum þaðan niður á tjörn til að gefa öndunum. En, Það var ógerningur að gefa öndunum neitt því gæsirnar og mávurinn voru svo aðgangshörð að þau ætluðu að ráðast á okkur á meðan við vorum að rífa niður brauðmolana. Það er synd að það skuli ekki vera hægt í rólegheitunum að gefa öndunum brauðmola eins og maður gerði nú með krökkum hérna áður fyrr en núna komast þær hvergi nærri fyrir þessum vargi og börnin verða bara hrædd þegar þessi ferlíki ráðast að manni með frekjunni. 


Við eyddum því ekki miklum tíma við tjörnina en fórum áleiðis að Austurvelli. Oddur Vilberg rak þá augun í að Dómkirkjan var opin og þangað skyldum við fara. Það var yndislegt að koma þar inn og sólargeislar lýstu upp inni í kórnum. Það var gaman að finna hvað börnin fundu helgidóminn þarna því þau hvísluðu, nokkuð sem þau eru ekki beinlínis vön að gera. Oddur Vilberg spurði t.d. hvort presturinn ætlaði ekkert að koma. Fannst það skrítin kirkjuferð þar sem enginn væri presturinn.  Við skoðuðum svo myndirnar á Austurvelli og fórum síðan í ísbúð og fengum okkur ís. Ég hafði stungið upp á því að þarnæst færum við niður á höfn að skoða skipin og Oddur Vilberg var mjög ánægður með það en Karlottu fannst ekkert spennandi að fara að skoða þessi asnalegu skip. Það var því úr að amma leysti málið með því að fara upp á Arnarhól og sjá þaðan yfir höfnina. Eftir að Oddur Vilberg var búinn að kíkja á fólk sem sat á bekk undir styttunni af Ingólfi Arnarsyni þá spurði hann varfærnislega hvort Bogi og Örvar væru ekki þarna núna, hvar þeir væru þá eiginlega. Já það er óhætt að segja að börnin lifa sig inn í það sem þau sjá í sjónvarpinu. (sbr. einnig síðustu færslu í dagbókina).
Við Seðlabankann fundum við svo þennan fína róluvöll. Mér datt nú í hug hvort þessir sem naga blýantana fari öðru hvoru út að róla sér.
Við lukum borgarrápinu þarna á Arnarhólnum því þegr við höfðum verið þar nokkra stund hringdi Guðbjörg og var þá tilbúin að fara heim. Ég læt fylgja hérna nokkrar myndir sem ég tók í þessari ferð.


Kristín nágrannakona mín kom svo rétt eftir að við komum hérna heim og færði mér blóm og voða fína sápu og við sátum hérna og spjölluðum góða stund.


Í kvöld vökvaði ég svo aftur garðinn og straujaði nokkrar flíkur. Á morgun á ég svo von á Birgit og Ingunni í súpu um hádegið. Best að fara að koma sér í rúmið svo maður verði nú í fínu formi til að njóta þess að vera með gestunum.


 

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

Skildu eftir svar