Bara tízkan sem gildir.

Nú fer óðum að styttast í að ég verði komin með gifs á báða fætur. Ég er búin að hitta svæfingalækninn og á að mæta á mánudagsmorguninn í aðgerðina svo nú er niðurtalningin hafin fyrir alvöru.  Það er meiriháttar mál að finna einhver föt sem maður getur klæðst næstu vikurnar. Það er nefnilega svo fyrirferðarmikið gifsið að maður kemst ekki í venjulegar buxur.
Ég var að athuga hérna í Intersport í dag hvort það væru ekki til buxur með rennilás upp hliðarnar eins og maður sá marga í fyrir nokkrum árum. Neei, það er nefnilega ekki í tízku lengur. Nú er hægt að fá buxur með smá rennilás og tuska saumuð á bakvið svo rennilásinn hefur í raun enga þýðingu. Hvað um okkur sem verðum í gifsi? Við konur ættum reyndar að geta fundið einhverja pilsgopa til að vera í en ég býst nú ekki við að karlmenn láti sig hafa það að fara að ganga í pilsi. Það er alveg ótrúlegt með þessa tízku. Það er ekki nokkur leið að fá það sem mann bráðvantar ef það er ekki í tízku þá stundina því það væri vitaskuld alveg skelfilegt ef einhver færi að vera í íþróttabuxum sem ekki væru í hátízkunni. Hvílíkt rugl.


Ef einhver veit nú hvar ég gæti fundið buxur með rennilás svoldið hátt upp í hliðarnar þá væri fínt að fá að vita af því.  Ég ætlast samt ekki til að þið bendið mér á fataskápa vina ykkar þó ég orði þetta svona.


Jæja nú er Haukur í háloftunum á leið heim frá Danaveldi. Það varð úr að ég færi ekki að sækja hann til Keflavíkur því hann kemur ekki fyrr en í nótt og svo var hann svo heppinn að þekkja fólk sem var líka á heimleið og hann fær far með þeim. Hann kemur því bara austur á morgun og þá fæ ég að heyra alla ferðasöguna. 
Best að koma sér bara í bólið. Það var lögð rík áhersla á það við mig að koma úthvíld og vel sofin í aðgerðina svo ég er að reyna að koma betri skikk á svefninn hjá mér. Nú er ég búin að drekka kvöldteið og ætla að reyna að vera ekki að vaka allt of lengi heldur koma mér í rúmið á skikkanlegum tíma.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

2 Responses to Bara tízkan sem gildir.

  1. afi says:

    Þú verður nú að reyna að tolla í tískunn, þrátt fyrir gifsið.
    afi á vatnsheldar hlífðarbuxur með rennilás frá toppi til tágar.
    En þær líta ekki út ens og nýjar eftir áralanga notkun.
    Gangi þér allt í haginn.

  2. Anna Sigga says:

    Gangi þér vel!
    Ég skal hugsa sérstaklega til þín n.k. mánudag. Þetta verður búið og liðið áður en þú veist af. Kveðja, Anna Sigga

Skildu eftir svar