Helgarfrí/Kær kveðja

Jæja kæru vinir, bara nokkrar línur til að láta ykkur vita að allt gengur vel.
Já, það gengur allt vel með fæturna á mér – eða ég held það a.m.k.   það var sniðið af táliðunum á báðum stórutám á mér á s.l. mánudag og sett gifs og spelkur. Læknirinn taldi að þetta hefði gengið vel en lofaði samt ekki 100% á verri fætinum en ég er nú samt viss um að þetta verður fínt. Ég bara finn það á mér að þetta verður gott.


Eftir að láta dekra við mig á Jósefsspítalanum í sólarhring þá sótti Haukur mig og fór með mig, í slagveðursrigningunni á þriðjudaginn, austur í Hveragerði þar sem ég hef verið síðan, í góðu yfirlæti.  Ég  verð í Hveragerði alla vega á meðan ég er að fá blóðþynningar-sprautur daglega en ef allt er í fínu þegar því lýkur þá vil ég helst komast heim.  Ég er orðin mjög dugleg að ganga með hækjunum og fínt að hafa þær til að bola frá (gömlu) köllunum þegar þeir gerast of nærgöngulir við „stelpuna“  Já, aldursskiptingin er þannig þarna núna að  ég er sem sé stelpan. Ein gamla konan spurði mig hvort ég væri ekki með lítil börn heima. Ég sagði henni að ég yrði sextug á næsta ári. Hún kallaði þá til þeirra sem voru á næsta borði og sagði “ Haldið ekki að stelpan sé að verða sextug.  Ég á nú eftir að svífa á þessu bleika skíi næstu daga, eða þar til alvöru stelpa mætir á svæðið, vonandi verður það ekki á meðan ég verð þarna því þetta er ósköp notaleg tilfinning. Ég á orðið margar vinkonur þarna sem keppast við að bjóða mér í kaffi á „Sultartanga“. Það er svona leyni-kaffistofa, því vitaskuld á bara að drekka jurtate á svona stað og ekki borða neitt sætara en kringlur og bruður. En það er svona horft framhjá því að fólk hiti sitt eigið kaffi á „Sultartanga“ og ég hef verið að njóta þess að vera þar í góðum félagsskap.
Guðbjörg og Magnús sóttu  mig í gærkvöldi og ég borðaði með þeim og var hérna heima í nótt en ætla svo aftur í öryggið í heilsubælinu í kvöld.


Ég má ekki sitja lengur við tölvuna því fæturnir mega ekki hanga of lengi. Ég hlakka til að komast í fast samband við tölvuheiminn áður en langt um líður.


Kær kveðja og þakkir til ykkar allra sem hafið sent mér góðar hugsanir og kveðjur


 

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

One Response to Helgarfrí/Kær kveðja

  1. afi says:

    Það er gott að þetta tókst vel.
    afi óskar þér góðs bata.
    Það er eins gott að hann hætti sér ekki of nærri „stelpunni“ tala nú ekki um svona vel vopnaðri.

Skildu eftir svar