Sagan af nýja gifsinu. Taka 1-2-3 og 4

Á mánudaginn, þann 12. september var komið að því að saumarnir yrðu teknir út fótunum á mér og ég fengi nýtt gifs til þess að spígspora á næstu þrjár vikurnar. Það varð úr að ég fór með rútunni frá Hveragerði klukkan sjö um morguninn og elskulega vinkonan mín hún Edda Garðars beið eftir mér á planinu hjá Litaveri (Þó ég væri búin að segja henni að ég myndi bara taka leigubíl þegar ég kæmi úr rútunni, en þetta var sko henni líkt). Hún tók andköf þar sem hún beið á planinu fyrir framan Litaver, og sá mig koma haltrandi með tvær hækjur yfir götuna. Hún hélt að rútan færi niður Grensásveg en ég hafði þurft að ganga frá síðustu stoppistöð áður en komið var að gatnamótunum. Þetta var nú ekki stórmál fyrir mig því ég hafði varla komið út fyrir dyr í marga daga og sem betur fer var veðrið gott þennan dag. 


Nú lá leiðin upp á Endurkomu þar sem ég átti tíma klukkan 8:10. Ég var nú heppin að komast fljótt inn og tvær hjúkkur hófust handa við að klippa af mér gamla gifsið, draga úr saumana og setja nýtt. Ég þurfti svo að bíða nokkra stund meðan það væri að þorna. En bíðið nú við, þegar ég steig svo í fæturna þá var eins og ég stigi á glerbrot. Þær höfðu nefnilega ákveðið að það væri meiri stuðningur fyrir mig að fá þetta undir ilina líka svo þegar ég steig niður þá þrýstist brúnin á gifsinu upp undir tábergið. Þær sáu að svona gæti þetta ekki verið og klipptu þetta nýja gifs af mér aftur. – Alltaf beið Edda mín róleg frammi – 
Jæja, nú var komið að „töku 2“ eins og kvikmyndagerðarmenn segja. Í þetta sinn var ákveðið að hafa þetta í líkingu við það sem læknirinn hafði sjálfur sett eftir aðgerðina. Og viti menn eftir að þetta var búið að þorna og ég steig í fæturna þá fannst mér þetta bara vera í lagi.


Þegar þarna var komið sögu ákváðum við Edda að skreppa í Perluna og fá okkur kaffisopa og rúnnstykki því hvorug hafði borðað um morguninn. Jón kom svo til okkar og síðan héldum við öll austur í Hveragerði og þau voru svo sæt að borða með mér um hádegið. Hvílíkt dýrmætt að eiga svona góða vini.


Þegar fór að líða á daginn og ég var búin að pjakkast nokkrar ferðir þarna um gangana þá fann ég að þetta nýja gifs særði mig alltaf meira og meira og þegar að var gáð var nærri komið sár þar sem ójöfn brún á gifsinu nuddaði mig. Hjúkrunarfólkið á vaktinni reyndi að fóðra brúnina með einhverju mjúku og ég var allan næsta dag að reyna að ýta því innundir því það vildi alltaf losna.

Þegar þarna var komið sögu var ég búin að taka þá ákvörðun að fara að koma mér heim í Sóltúnið. Ég þurfti að láta lækninn þarna útskrifa mig og hann sagði að ég yrði að fara á heilsugæsluna á Selfossi og láta laga betur þetta gifs til að það yrði til friðs þessar þrjár vikur sem eftir væru.


Áfram með smjörið og nú var komið að „töku 3“.  Læknirinn á heilsugæslunni klippti sem sé af mér þetta gifs númer tvö og setti á mig endurkomugifs númer þrjú og vafði svo þykku teygjubindi rækilega yfir allt saman. Mér fannst það nú svoldið fast en hann sagði að ég gæti þá bara reynt að losa það síðar.


Heim fór ég og ákvað nú að þetta yrði í lagi. Um nóttina vaknaði ég síðan við rosalega verki í tánum sem ekkert höfðu verið hreyfðar og fannst ég einhvernvegin dofin í fótunum. Það var því ekki um annað að ræða en losa um teygjubindið og þá komu bláar og hálfdauðar tærnar á mér í ljós . Það kom líka annað í ljós þegar ég fór að losa um vafningana. Það var bara gifsrenningur ofan á stóru tánum en ekkert undir þeim og ég sem mátti alls ekki hreyfa þær.


Á þessum tímapunkti var ég nú að missa þolinmæðina og vissi satt best að segja ekki mitt rjúkandi ráð hvað ég ætti að gera. Ég þraukaði þó nóttina og hafi svo samband upp á Landspítala daginn eftir. Mér var sagt að koma þangað uppeftir sem ég og gerði.


„Taka 4“.  Til að gera nú allt of langa sögu stutta þá er ég sem sagt komin með fjórða gifsið eftir að saumarnir voru teknir úr. Þetta lítur a.m.k. ennþá, daginn eftir mjög vel út og meiðir mig ekkert. Alveg eins gott og læknirinn setti upphaflega sjálfur. En ferlið í kringum þessa endurkomu hefur verið með ólíkindum.


Hvernig er það annars, er ekki í gangi sparnaður í heilbrigðiskerfinu???

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

Skildu eftir svar