Góðir gestir.

Ég bauð öldruðu vinunum mínum af Heilsustofnun í Hveragerði að koma í kaffisopa til okkar Hauks í Sóltúnið s.l. fimmtudag. Margrét var með bílinn sinn svo við þurftum ekki að sækja þau en auk hennar þá komu Eva og Daníel og Sigurbjörg (91 árs)
Haukur bakaði stafla af pönnukökum og það var drukkið spákaffi því Sigurbjörg hefur svo gaman af að kíkja í bolla. Eins og venjulega var hún stjarna samkvæmisins og fór með fullt af skemmtilegum vísum sem ekki voru bara vísur heldur fylgdi sagan á bak við hverja þeirra líka. Það er bara verst að ég „unga konan“ er svo gleymin að ég get ekki haft þessar frábæru vísur eftir. Já svona er nú lífið.


Eftir kaffið spilaði Haukur nokkur lög á harmonikuna og við sungum með og svo mátti ég til að taka einn vals með Sigurbjörgu því hana langaði svo að dansa og enginn gat eða þóttist kunna að dansa við hana nema ég – konan með gifs á báðum fótum. þetta gekk samt bara vel og sú gamla var ánægð – alla vega ljómaði hún af gleði. Okkur fannst þetta alveg einstaklega skemmtileg heimsókn.


Það hefur gefið mér mikið að kynnast og vera með þessu gamla fólki, sem miðlaði bæði fróðleik og skemmtun. Já við skemmtum okkur konunglega saman og hlógum mikið meðan ég var þarna í „heilsubælinu“. Ég hefði ekkert skemmt mér betur þó ég hefði verið með jafnöldrum eða yngra fólki.
Ég er að hugsa um að skreppa og heimsækja þau áður en þau fara hvert til síns heima.  Það er sorglegt þegar svona góð kynni takast að svo hverfur hver til síns heima og enginn frekari samgangur verður. Það er samt aldrei að vita.


 


 

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

3 Responses to Góðir gestir.

  1. afi says:

    Það er alltaf gaman í góðum félagskap.
    Maður er manns gaman.

  2. Stefa says:

    Gamla fólkið
    Hæ elsku Ragna mín,

    mikið skil ég þig vel. Eitt það yndislega við þessa veröld er að geta eignast vini burtséð frá því á hvaða aldri þeir eru. Gamla fólkið okkar býr yfir svo gífurlega skemmtilegri og þó oft á tíðum erfiðri reynslu frá sínum bestu árum að það væri synd ef við fengjum ekki að hlusta á sögurnar þeirra öðru hverju.

    Rosalega hlakka ég til þegar við Sigurrós komumst á elliheimili – ég held að það verði rokna stuð hjá okkur 😉

    Langaði annars bara að segja þér að ég kem alltaf reglulega við á Rögnu-blogginu og kíki á það sem er helst að gerast.

    Vona að þú hafir það sem allra best. 🙂 *Knús* Stefa

  3. Ragna says:

    Það er gaman að heyra frá þér Stefa mín. Já, ég sé ykkur vinkonurnar svo sannarlega fyrir mér halda uppi stuðinu á elliheimilinu og rifja upp þegar þið voruð nú kennarar og kennduð þeim sem nú væru mikilmennin í þjóðfélaginu.
    Kveðja og knús

Skildu eftir svar