Sigurrósarhelgi.

Sigurrós kom og bjargaði fyrir mér helginni. Þakka þér fyrir Sigurrós mín.


Það er nefnilega farið að reyna á þolinmæðina hjá mér að vera með þetta gifs á fótunum. Það er annars merkilegt að ég var ekkert nema þolinmæðin í fjórar vikur en núna þegar komið er að fimmtu vikunni og ég farin að sjá fram á að þessi hluti eftirbatans, sé að verða búinn, þá vil ég helst rífa þetta af mér STRAX því það er svo margt sem mig langar til að gera og fara. Það er nefnilega ekkert gaman fyrir svona pjattrófu eins og mig að fara á mannamót svona kauðsk til lappanna. Svo er ég líka spennt að hefja næsta kafla, sem læknirinn sagði reyndar að væri erfiðastur eða eins og hann sagði „(blóð) sviti og tár tímabilið“, sem felst í því að æfa stóru tána. Það vill nefnilega svo til, þegar gifsið er tekið, þá mun það gerast þegar ég stíg í fæturna, að  hinar fjórar tærnar fara í eðlilega stöðu en stóra táin lyftist upp svo það þarf að ná henni niður með erfiðum æfingum.
Af því að það sem komið er hefur gengið miklu betur heldur en búið var að hræða mig með þá hef ég ákveðið að mikla þetta ekki fyrir mér fyrirfram.  Nú get ég bara ekki beðið eftir því að takast á við þennan kafla.  Ég ætla sko í almennilega skó um jólin og hananú.


En aftur að helginni. Sigurrós kom sem sagt með rútunni austur á föstudaginn og við erum búnar að eiga góða helgi, (fyrir utan það hvað Sigurrós hefur verið illt í hendinni).
Við höfum bæði verið hérna tvær einar í afslöppun með nammi og tilheyrandi og í góðum félagsskap annarra, en Guðbjörg, Magnús og krakkarnir komu til okkar í morgunkaffi á laugardaginn og buðu okkur svo til sín í veislumat um kvöldið. Í dag komu svo Rut og Smári með tvo afa/ömmustráka.


Nú er Sigurrós mín farin aftur heim og ég orðin ein í kotinu en það verður reyndar ekki lengi því Haukur er að klára vinnusyrpu í dag og kemur austur í kvöld. 


 

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

One Response to Sigurrósarhelgi.

  1. afi says:

    Engan gassagang kelli mín, þolinmæði þrautir vinnur allar.
    Þú ert aldeilis ekki ein þegar þú átt svona góða að.
    Farðu vel með þig.

Skildu eftir svar