Hættulegar borgarferðir.

Það var nú ekkert hættulegt að hitta bæklunarlækninn því hann var mjög ánægður með handverkið sitt og með árangur minn í eftirmeðferðinni. Það eina sem hann bannaði mér að gera að svo stöddu var að hlaupa því þá gæti ég brotið tána um aðgerðarsvæðið, það ku hafa komið fyrir mætan mann sem líka var svona duglegur.
Nú er bara að hafa fingurna í kross og vona að ekki komi geltandi hundar á eftir mér þegar ég er úti að ganga því fátt kæmi mér frekar til að hlaupa eins hratt og ég get.


Það sem var hættulegt við borgarferðina mína voru hinsvegar hinar margvíslegu freistingar sem svo auðvelt er að falla fyrir. Þegar ég kom frá lækninum heimsótti ég Ingunni vinkonu mína í Tískuvali. Ég féll alveg fyrir peysu sem ég bara varð að kaupa. Það sem ég hinsvegar hafði ætlað mér að skoða, sem sagt vetrarjakka, fann ég ekki passlegan hjá henni og réttlætti því að kaupa peysuna. Já, svona eru nú bara rök kvenna við slíkar aðstæður.  En, því miður er sagan ekki á enda því á leiðinni út úr bænum var ég alltaf að hugsa um jakkann og þegar ég var komin á móts við Topphúsið á Suðurlandsbrautinni gerðist það sama og hjá litlum frænda mínum forðum daga, þegar hann og vinur hans höfðu verið að selja dagblöð.  Þeir komu alsælir heim, kámugir um munninn en peningalausir. Skýringin var einföld  „Já en sjoppan bara kom á móti okkur“.  Sama gerðist hjá mér í dag. Ég gat bara ekki afstýrt því að Topphúsið kom á móti mér og til að gera langa sögu stutta kom ég sem sé líka heim með vetrarjakka.
Ég hefði ekki átt að bregða út frá vananum sem er sá, að sinna mínum erindum í borginni og svo beint strik aftur heim. En, mikið er nú gaman að fá sér eitthvað nýtt 🙂

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

2 Responses to Hættulegar borgarferðir.

  1. Anna Sigga says:

    Maður verður nú stundum að leyfa sér smá! 😉
    Til hamingju með nýju flíkina!!!

  2. Þórunn says:

    Hættulegar bæjarferðir
    Sæl og blessuð, til hamingju með nýju fötin, en það eru fleiri en þú sem láta freistast og það með heldur dýrari hlutum en peysu eða jakka, þú getur séð hlutinn sem við féllum fyrir í dag ef þú ferð á heimasíðun Austurkots.

Skildu eftir svar