Laugardagur í betri kantinum.

Það var saumaklúbbur hjá Önnu í dag. Við hittumst um hádegið eins og við höfum gert síðustu skipti. Líklega höldum við bara þeim sið að hittast í hádegi á laugardegi.  Haukur hringdi í mig klukkan fjögur og spurði hvort hann væri að trufla mig við að keyra og varð alveg undrandi þegar ég sagði honum að ég væri bara í saumaklúbbnum, ha, ennþá ??? 
Já við höfum sko alltaf nóg um að tala í saumaklúbbnum þó minna fari fyrir hannyrðunum, samt kom Sonja með peysu sem hún er að prjóna og tvær aðrar sem voru í vinnslu.  Á meðan við vorum yngri höfðum við nú ekki mikið fyrir því að prjóna, telja út og hvaðeina og gátum samt talað líka. Nú hinsvegar, eftir að rásum hefur fækkað og við orðið að forgangsraða, þá bara tölum við 🙂  Guðbjörg mín er alltaf jafn hissa á okkur að nenna að hittast hálfsmánaðarlega en þar sem við höfum gert það í öll 40 árin þá förum við ekki að breyta því núna enda veitir okkur ekkert af að hittast á hálfs mánaðar fresti. Ætli við endum ekki á því þegar við erum orðnar svo gamlar að við förum að fara á fætur klukkan sex á morgnanna, að hittast í morgunmat og vera til kvölds.


Ég var að hugsa það á leiðinni í bæinn í morgun, í glampandi sól og 12 stiga hita, hvort það yrði eins og í fyrra að grasið yrði grænt fram yfir áramót. Að sumu leyti finnst manni það dásamlegt hvað veturinn er orðinn stuttur og hvað hlýindin eru mikil, en á hinn bóginn finnst manni eitthvað vanta á haustið að það skuli ekki vera kominn einn einasti frostdagur. Þetta er að verða eins og í Evrópu.  Það verður auðvitað annað hljóð í mér þegar ég fer að úthúða frostinu og hálkunni en svona líður mér í dag.


Ég var svo heppin að Guðbjörg hringdi í mig þegar ég var á leiðinni heim áðan og bauð okkur að koma í kjúklingarétt sem Magnús ætlaði að elda. Ég var ekki lengi að segja „Já takk“ og bíð nú eftir að Haukur komi austur svo við getum mætt í matinn. Það er ekki á hverjum degi sem maður fer í tvö matarboð sama daginn. Mikið ætlar þetta að verða notalegur laugardagur, svo er bara að horfa á Gísla Martein og Spaugstofuna í kvöld og hver veit nema maður fái sér Sherry staup.


 

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

Skildu eftir svar