Flúðaferð.

Guðbjörgu datt það snjallræði í hug að fara með fjölskylduna í sumarbústað að Flúðum um helgina og „amma“ fékk að njóta þess að fara líka og Sigurrós kom austur með rútu til að slást í hópinn. Svo þeir sem mættir voru á staðinn voru sem sagt, eins og Sigurrós skrifaði í gestabókina; þrír kennarar, tvö kennarabörn og ein kennara mamma/tengdó/amma.
Bíltúrinn að Flúðum tók í sjálfu sér ekki langan tíma, þ.e. fyrsta ferðin. En þegar við vorum komin inn með dótið og fórum að setja utanum rúmfötin kom babb í bátinn.
Ég var á föstudagsmorguninn, áður en ég fór í sjúkraþjálfunina, samviskusamlega búin að finna til rúmföt fyrir mig og Sigurrós og setja í tösku ásamt öðru sem ég ætlaði að hafa með mér. Síðan tók ég rúmfötin aftur upp úr töskunni því ég þurfti að nota plássið fyrir annað og ákvað þá að hafa bara rúmfötin sér í plastpoka. Þegar þarna var komið sögu þá þurfti ég að rjúka í sjúkraþjálfunina og svo beint þaðan til að sækja Sigurrós í rútuna. Við komum svo aðeins hérna heim og bárum allt dótið út í bíl og svo var lagt af stað í sveitina.
Þegar á staðinn var komið þá kom í ljós að rúmfötin VORU HEIMA Á SELFOSSI, arg, arg. Sigurrós sagði það ekkert mál. Við færum bara í kaupfélagið sem við höfðum séð í þorpinu merkt svo snilldarlega SUPERMARKET því eftir nafninu að dæma fengist allt þar.  Við ókum sem sé aftur niður í þorpið og inn í SUPERMARKET en eftir að hafa leitað í hverri hillu og kíkt inn um allar dyr sáum við ekkert sem gæti nýst sem rúmföt. Mér datt þá það snjallræði í hug að fara á hótelið og fá leigð rúmföt fyrir tvær nætur og bjóðast líka til að greiða tryggingu fyrir skilum.  Afgreiðslumaðurinn á Hótel Flúðum sagði, eftir að hafa starað á okkur nokkra stund, að það væri alls ekki hægt. Við hringdum nú í Guðbjörgu og sögðum farir okkar ekki sléttar. Þá kom í ljós að hún þekkti kennara á Flúðum en sú var nýflutt og ekki í símaskránni. Við Sigurrós fórum því aftur í SUPERMARKET og spurðum hvort þær þekktu kennara sem hefði flutt í haust að Flúðum.  Já, Já það er hún Sigþrúður í Hvammi, ég skal bara hringja í bróður hennar og fá símanúmerið. Bróðirinn gaf upp símanúmerið en sagði jafnframt að Sigþrúður væri fyrir vestan.  Afgreiðslustúlkan í SUPERMARKET, sem var búið að upplýsa um erindi okkar, var nú farin að vorkenna okkur verulega og sagði veiklulega að hún ætti kannski einhver rúmföt til að lána okkur en hún ætti bara heima úti í sveit. Við þökkuðum henni kærlega fyrir gott boð en sögðum þetta bjargast.
Þegar við komum út þá ákváðum við hinsvegar að fara á Selfoss og sækja rúmfötin. Við settum sem sagt Pollyönnuleikinn í gang. Veðrið væri svo fallegt til að keyra fram og aftur milli Flúða og Selfoss og svo hefðum við um nóg að tala á leiðinni.  Við sinntum því næst tilkynningaskyldunni og gáfum upp staðsetningu rétt utan við Flúðir á leið á Selfoss. Magnús sagði okkur að snúa við því hann skyldi fara en við tókum það ekki í mál og brunuðum í átt til Selfoss.  Þetta var hin ágætasta aukaferð. Við komum svo mátulega í bústaðinn aftur þegar það var búið að gera allt fínt í bústaðnum og heita vatnið komið í pottinn. Við þurftum því ekki að gera annað en snara okkur í sundbolina og beint út í heitapott.


Á laugardaginn fórum við í bíltúr að Geysi og gengum þar um svæðið. Strokkur var nú óvenju eitthvað aumingjalegur og Sigurrós heyrði útlending segja “ Was that really it?“  Honum þótti greinilega ekki mikið til þessa koma.
Við Sigurrós fórum með krakkana að skoða jarðsögusafnið en við vorum búnar að lofa þeim að þau fengju að standa á jarðskjálftaglerinu. Það lá nú við að við segðum það sama og útlendingurinn um Strokk,  en krakkarnir fundu titringinn vel. – Kannski er maður bara að verða of þungur – eða hvað?


Meiningin var að fara í göngutúr í Haukadalsskóg en tvennt kom til. Það var alveg bálhvasst og kalt og ég var að farast í fótunum. Ég hef nefnilega ekki passað að setja öðru hvoru tærnar upp í loft megnið af vikunni svo nú var einfaldlega komið að skuldadögunum. Það er nú bara af því það hefur allt gengið svo vel eftir fótaaðgerðina að ég var búin að gleyma því að ég þyrfti eitthvað að vera að hvíla mig sérstaklega en mundi það svo óþyrmilega þegar ég var orðin bólgin og aum. Í dag eftir að ég kom heim hef ég hins vegar setið samviskusamlega í mínum Lazy-boy og látið fara vel um mig svo á morgun ætti ég að vera komin á beinu brautina aftur.


Helgin var súperfín en hér ætla ég að setja punktinn og fara að horfa aðeins á sjónvarpið – með tærnar upp í loft.


 

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

One Response to Flúðaferð.

  1. Þórunn says:

    Sængurföt
    Ég sé það núna að við hefðum átt að kynnast aðeins fyrr, þá hefðir þú bara þurft að keyra í fimm mín. til að fá sængurföt hjá bróður mínum honum Halldóri golfbónda á Seli. Þú manst það bara næst:-)
    Þórunn

Skildu eftir svar