Óvænt uppákoma.

Af því að ég er nú í því að skrifa um aulahátt minn þá verð ég að bæta einu í viðbót. Í þeirri von samt að ekki standi yfir mér menn með spennitreyju þegar ég vakna í fyrramálið.


Ég var nú búin að segja frá þvottavélaruglingnum og gleymskunni á rúmfötunum  en ég hló svo mikið að óförum mínum í morgun að ég gat varla talað.


Þannig er að við Haukur fórum í göngutúr í góða veðrinu í morgun og ákváðum að ganga út í Grundartjörn og kíkja á framkvæmdirnar í baðherberginu hjá Guðbjörgu og Magnúsi Má. Magnús sýndi okkur baðherbergið og gaf okkur svo kaffisopa og við sátum góða stund og eins og gengur ákvað ég að fara nú á snyrtinguna áður en við legðum af stað aftur heim.  Eins og siðuðu fólki sæmir ætlaði ég að þvo mér um hendurnar en það var hins vegar ekki búið að tengja vaskinn svo ég ákvað að þvo mér um hendurnar í baðkarinu því þar var allt full tengt. Ég teygði mig í kranann og ýtti honum upp – það var þá sem það gerðist –  Yfir mig steyptist sturta af fullum krafti og ég fann vatnið leka úr hárinu á mér og niður andlitið og axlirnar.  Ég teygði mig í ofboði til að skrúfa fyrir og þar með blotnaði ermin á peysunni minni líka.   Og svo kom hláturskastið. Ég sá fyrir mér svipinn á fólkinu þegar ég kæmi svona fram og ég bara engdist af hlátri. Þau vissu ekki hvað hefði komið fyrir mig þegar þau heyrðu bara einhver furðuleg hljóð og síðan kom ég öll í keng af hlátri. Þá hrópaði Guðbjörg upp „Mamma!  ætlaðir þú að þvo þér um hendurnar í baðkarinu það var stillt á sturtuna“. – Mikið rétt það var sem sé stillt á sturtuna, það þurfti ekki að segja mér það a.m.k. ekki þegar þarna var komið sögu. 

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

3 Responses to Óvænt uppákoma.

  1. Hulla says:

    Ó Ragna, þú ert bara æðisleg. Haltu áfram að vera þannig.

  2. afi says:

    Er ekki kominn tími til að tengja?
    Annars er enginn verri þótt hann (hún) vökni. Góð frásögn.

  3. Ragna says:

    Það er þetta með að tengja, það getur verið býsna erfitt ef leiðslurnar eru orðnar gamlar og lélegar, ekki satt?

Skildu eftir svar