Of snemmt.

Það eru ekki bara verzlunareigendur sem koma allt of snemma með jólaskraut og tilheyrandi auglýsingar, heldur hafa máttarvöldin illilega ruglast í ríminu líka og eru búin að láta okkur fá jólasnjóinn 16. nóvember, eins og sjá má af myndunum sem ég tók í dag . Ég bara vona að við fáum uppbót á aðfangadag svo jólin verði svona ekta hvít því það fer svo vel við ljósadýrðina. Nú er best að fara ekki að detta í jólagírinn með því að sjá þetta fyrir sér. Ég er nefnilega svo á móti því að byrja þetta allt svona snemma, en manni minn hvað það er auðvelt að smitast.
Ég kom í Nóatúnsbúðina í dag og ég varð að beita sjálfa mig hvílíkum fortölum og beinlínis toga sjálfa mig í burtu frá svignum borðum af alls konar æðislegu jóladóti. Í því að ég fór að teygja mig til að skoða nánar svo myndarlega jólasveina sem stóðu þarna í röðum, þá minnti skynsemis-Ragnan mig á að í fyrra hefði ég ekki einu sinni komið fyrir öllu jóladótinu mínu svo best væri að skoða það áður en ég færi að bæta við. Jú mikið rétt, eeen, oh þetta var svo fallegt allt saman og það er svo erfitt að halda í það „prinsipp“ að bíða með það fram að aðventu að skoða alla dýrðina.


Sko, sjáið nú bara hvað þessir verzlunareigendur eru að gera manni. Það endar örugglega með því að maður verður farinn að kaupa jóladótið og setja það upp í byrjun nóvember eins og þeir í Ameríkunni gera. Ég þori alla vega ekki að treysta á staðfestu mína ef þetta er það sem koma skal ár eftir ár.


Hér eru svo nóvembermyndirnar mínar.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

3 Responses to Of snemmt.

  1. Snjór
    Mikið er fallegt að sjá svona djúpan og nýfallin snjó! Já Ragna það er erfitt að standast freistingarnar þegar búðareigendur höfða til manns, þú gætir þó skift dótinu milli ára, jöfnu ártölin og oddatölurnar eða bara þema, nei nú hætti ég 🙂 kveðja til ykkar, Gurrý

  2. Hulla says:

    Æðislegar myndir! Smá snjór hér, en ekkert í líkingu við ykkar snjó. Veistu að ég er næstum búin að öllu fyrir jól! Nú ætla ég að reyna að gera eins og danirnir og eiga desember í rólegheitum. Held að það sé bara gott að byrja snemma. Sakna ykkar hræðilega. Love u

  3. Ragna says:

    Það er gaman að sjá að tilganginum er náð, en það er ekkii hvað síst, að leyfa ykkur sem búið fjarri heimalandinu að skoða myndir og fá fréttir af okkur hérna á Fróni.
    Ég sendi öllum mínar bestu kveðjur.

Skildu eftir svar