Nýja sögnin

Ég held að ég hafi fundið upp nýja sögn í dag. Sögnina að jólast. Ég held a.m.k. að ég hafi ekki heyrt hana áður.


Á laugardaginn fór ég í saumaklúbb hjá Eddu Garðars og borðaði þar dýrindis máltíð í hádeginu og svo fengum við nammi,nammi tertu í eftirmat og fulla skál af konfekti.  Maður er svona óðum að komast í konfektgírinn. Ekki þori ég fyrir mitt litla líf að búa til konfekt sjálf því ég veit alveg hvar það lendir og ég er bara ekki nógu staðföst til þess að taka slíkum afleiðingum sem það hefur í för með sér. Ætli ég láti ekki Sörurnar nægja.


Eftir saumaklúbbinn kom Sigurrós með mér austur og síðan komu Guðbjörg og krakkarnir  og við drifum okkur í piparkökubaksturinn, en það er ein af þessum hefðum okkar að baka saman piparkökurnar og leyfa krökkunum að vera með. Ég var búin að þíða lambalæri og ætlaði svo að hafa okkur öll í mat um kvöldið. Ég byrjaði þessvegna á því Þegar ég kom heim að krydda og gera lærið klárt í ofninn en pakkaði því síðan snarlega inn aftur og setti það inn í ísskáp. Af hverju? Jú skýringin er mjög einföld og kom í ljós þegar Guðbjörg spurði mig hvernig ég ætlaði að fara að því að steikja læri og baka piparkökur í ofninum á sama tíma. Já, það er nú það. Ég gat þetta á meðan ég bjó á Kambsveginum því í eldavélinni minni þar voru tveir ofnar og þá setti maður steikina í annan og bakaði í hinum. Nú er öldin hins vegar önnur og bara einn ofn. Magnús Már bjargaði okkur hinsvega í þá mund að við vorum að klára baksturinn en þá kom hann færandi hendi með kjúklinga úr Kentucky fried og ég verð nú að viðurkenna að það var ósköp notalegt að þurfa ekkert að fara að stressast við eldamennsku enda klukkan orðin margt því við Sigurrós komum ekki hérna austur fyrr en um klukkan fjögur svo tíminn leið hratt.


Á sunnudaginn fór ég síðan í mína þriðju ferð í Sveitabúðina í Gaulverjabænum því mig langaði svo til að leyfa Sigurrós að koma þangað og sjá hvað á boðstólum væri. Veðrið var svo yndislega fallegt allt hvítt hvert sem auga leit og sólskin. En það var ansi hált á sveitaveginum og í einni beygjunni tókum við smá dans, þrátt fyrir það hvað ég ók rólega, en allt fór vel og við sluppum með skrekkinn og gátum haldið áfram.


Jói kom svo og sótti Sigurrós um kaffileytið og ég fór síðan og borðaði með þeim í Grundartjörninni. Þetta var bara rosalega fín helgi í alla staði.


Í dag fékk ég fyrsta jólabréfið frá einni af ensku vinkonum mínum og það minnti mig óþyrmilega á að ég er ekki búin að skrifa bréfin eða ganga frá kortunum sem eiga að fara til útlanda. Nú er ég búin að setja bann við því að jólast neitt sem ég var búin að hlakka til að gera og það bann verður í gildi þangað til ég er búin með póstinn til útlanda. Ég verð víst að sætta mig við það. Það þýðir ekkert annað en hafa aga á heimilinu og þar sem ég er ein þá verð ég að sitja beggja megin við borðið og gefa fyrirskipanir og fara eftir fyrirskipunum.  Já lífið getur stundum verið snúið.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

2 Responses to Nýja sögnin

  1. Þórunn says:

    Sæl Ragna mín gott að heyra hvað helgina var góð hjá þér, svona eiga menn að njóta lífsins. Það er líka nauðsynlegt að hafa reglur á hverju heimili og venjulega öllum fyrir bestu að fara eftir þeim. Gangi þér vel í bréfaskriftunum.
    Kær kveðja, Þórunn

  2. Hulla says:

    Ég er búin að jólast í mörg ár. Jóa líka. :o) Ég held að allir á Stokkseyri jólist um hver jól. En samt sem áður mjög skemmtileg sögn. Kveðja frá ölum hér

Skildu eftir svar