Loksins

Þið hafið auðvitað haldið að ég hafi bara drukknað í minningunum við að skrifa á jólakortin, en svo slæmt var það nú ekki. Það hefur hins vegar verið nóg hjá mér að gera og svo er aðalmálið náttúrulega að ég er í svo slæmu sambandi við Símann að ADSL-ið sparkar mér bara óspart út og vill ekkert með mig hafa. Ég er orðin leið á að vera í miðju kafi að skrifa færslu eða bréf þegar allt dettur út og maður verður að fara aftur á byrjunarreit, Þá er bara úr manni allt púður.
Nú er ég búin að færa tölvuna á nýjan stað og í annað tengi og vonandi gengur það eitthvað betur.


Ég ætla ekki að láta mér detta í hug að færa inn allt það sem ég hef verið að gera undanfarið því það væri nú „too much“ eins og hann Kristján okkar Ólafsson myndi segja, en um helgina bökuðum við laufabrauðið. Sigurrós kom úr bænum á laugardaginn og Guðbjörg, Magnús Már og barnabörnin mættu til leiks. Við skárum út og bökuðum rúmlega 100 kökur og vorum voða montin af afrakstrinum. Síðan borðuðum við saman góðan kvöldverð.  Í gær var ég hinsvegar með smá aðventukaffi og þá var Jói kominn líka. Þetta var rosalega fín helgi hjá okkur.
Þar sem tölvusambandið virtist orðið betra þá settist ég við tölvuna seint í gærkvöldi til þess að skrifa netvinkonu minni í Portúgal bréf. Ég var komin með heilmikið bréf á skjáinn þegar allt í einu varð allt svart. Það fór sem sé rafmagnið af Selfossi, bara öllum bænum, ég veit ekki hvaða álög eru á mér þessa dagana í sambandi við tölvumálin. Þegar allt virtist komið í lag þá fer bara rafmagnið af. Það var auðvitað ekki að því að spyrja að þegar ég kveikti á tölvunni í morgun kom í ljós að  bréfið hafði farið út í myrkrið og ég fór aftur á byrjunarreit.  Ég hélt að það kæmi eitthvað um þetta rafmagnsleysi í fréttunum en það var ekki, en þetta stóð í eina tvo klukkutíma.


Þegar rafmagnið fór, og ég sat agndofa við tölvuna í kolsvarta myrkrinu, vakti það mig til umhugsunar um það, eftir þessa góðu helgi með jólaljósum í öllum gluggum, að sumir sjá aldrei ljósið. 
Kannski var þetta þörf áminning til okkar sem höfum allt til alls og þurfum ekki að kvarta yfir neinu að fá að upplifa það að vera í kolsvarta myrkri eins og margir búa við alla ævina.


Þetta verða lokaorðin mín í dag.


 P.S. Ég er búin að fá skýringu á rafmagnsleysinu. Það var víst búið að auglýsa að það yrði tekið af um miðnætti en konan í Sóltúninu heyrði það bara ekki frekar en flestir aðrir sem hún hefur talað við 🙁


 


 

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

2 Responses to Loksins

  1. Netvinkonan í Portúgal says:

    Kæra Ragna mikið er notalegt að sjá að þú ert komin í samband aftur, ég bíð róleg eftir bréfinu frá þér, er í góðri þjálfun við að bíða í Portúgal.
    Þórunn

  2. Ragna says:

    Bíddu nú við mín kæra. Mitt fyrsta verk í morgun var að skrifa þér nýtt bréf sem ég sendi áður en ég setti þetta blogg inn. Elsku láttu mig vita ef þú hefur ekki fengið það í dag.

Skildu eftir svar