ADSL vandræðunum vonandi lokið.

Ég er að vona að raunum mínum vegna ADSL tengingarinnar sem hefur verið að detta út hjá mér meira og minna í margar vikur fari að ljúka.  Ég er búin að vera að berjast við Símann í svo langan tíma og alltaf hafa þeir sagt að það væri eitthvað að í tölvunni hjá mér. 
Magnús Már er búinn að skipta út öllu sem hugsast getur og sumu aftur og aftur í tölvunni án árangurs hvað tenginguna varðar. Ég var líka búin að færa hana í annað herbergi og í annað símatengi og hélt að það hefði dugað en það reyndist ekki svo. Þá hringdi ég til þeirra í gær og sagði að nú yrðu þeir að gera eitthvað.


Og, viti menn. Seinni partinn í gær, sendu þeir mann frá Símanum til að mæla allt upp hjá mér og hvað haldið þið að hann hafi sagt að þeirri rannsókn lokinni?  Að það væru 99 % líkur á því að ADSL sætið (hvaða sæti sem það nú er), hjá þeim á Símanum væri ónýtt og þyrfti að skipta um það en það tæki líklega einn til tvo daga. Ég spurði nú þennan blessaða saklausa mann, sem ég hef ekkert talað við fyrr, af hverju í ósköpunum þeir væru ekki búnir að senda neinn fyrr en núna til að mæla þetta upp. Ég væri búin að vera með tölvusérfræðinga á haus í tölvunni hjá mér í langan tíma og margbúið að skipta út módemunum og öllu hugsanlegu, samkvæmt fyrirmælum frá Símanum, því það átti ekkert að vera að hjá þeim. Svo kæmi bara í ljós að þetta væri hjá Símanum sjálfum -eins og strákarnir mínir héldu reyndar allan tímann. Þessi frá Símanum sagði að það væri alltaf byrjað á því að láta fólk athuga hvort allt væri í lagi í tölvunni og tengingunum og síðan þegar algjörlega væri búið að útiloka að eitthvað sé að þar þá sendi þeir mann á staðinn.  


Ég verð nú að segja það, að mér þætti eðlilegra að Síminn, sem er þjónustufyrirtækið sem maður borgar áskriftina til, athugaði hjá sér hvort eitthvað væri að strax og frumþættir hefðu verið athugaðir í tölvunni. En, að senda ekki mann fyrr en búið er skipta um og endurnýja nánast allt í tölvunni finnst mér ófyrirgefanlegt. 
Ég hefði orðið að leggja tölvunni endanlega væri ég ekki svo heppin að eiga tvo tengdasyni sem eru tövusérfræðingar (og það er sko ekki þeim á Símanum að þakka). Það hefði líklega verið dágóður skildingur sem svona tölvuvinna hefði kostað á verkstæði.


Ég hef verið í góðu netsambandi í dag en ætla samt ekki að hrósa happi fyrr en nokkrir dagar hafa liðið.


Netvinkona mín í Portúgal hefur verið að undrast þjónustuna á þeim bæ hvað varðar netið, og kallar þá Bakkabræður sem hún hefur átt viðskipti við, en svei mér þá ef það eru ekki Bakkabræður á fleiri stöðum.


Það er leiðinlegt að þurfa að vera með svona leiðindaraus  en stundum má maður til og ég vona að mér verði það fyrirgefið.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

One Response to ADSL vandræðunum vonandi lokið.

  1. afi says:

    Vonandi fer að sjá fyrir endann á þessum nethremmingum hjá þér. Það er ólíðandi að fá ekki þá þjónustu sem greitt er fyrir. Næg ætti samkeppnin að vera, eða hvað?

Skildu eftir svar