Aðventan 2004

Þessi aðventa hefur verið mjög skemmtileg og notaleg. Ég hef ekkert þurft að stressast til Reykjavíkur í stórmarkaðina og það er nú mesti munurinn. Á meðan ég bjó í bænum fannst manni alltaf að eitthvað þyrfti að fara í Kringluna til að versla. Svo eyddi maður heilu dögunum í að rápa þarna um og kom heim örþreyttur og stressaður. Ég lenti meira að segja í útistöðum einu sinni í slíkri ferð við eldri herramann út af bílastæði. Mér fannst hann reyndar langt frá því að vera herramaður og Sigurrós, sem var með mér, var mér sammála um það. Það fór lítið fyrir anda jólanna á þeim bæ. Í stað þess að fara að rifja upp þá sögu þá tel ég heppilegast að eyða henni úr minninu, ásamt minningunni um aðfangadagsmorguninn þegar ég var að koma úr kirkjugarðinum. Ég skrapp inn í búð á heimleiðinni og þegar ég kom út þá var búið aka á tveggja mánaða gamlan bílinn minn á bílastæðinu, stórskemma hann og stinga af. Enginn hafði gefið sig fram í búðinni og ég náði ekki í nein vitni. Spurning hvort viðkomandi átti svo bara sín Gleðilegu jól eins og ekkert hafi í skorist.
Auðvitað getur sitthvað gerst hérna í sveitarómantíkinni en mér finnst bara allt svo afslappað og notalegt og vonandi verður það svo áfram.


Nú er búinn að vera jólatíminn í vatnsleikfiminni. Það voru tveir hópar saman  og glatt á hjalla. Við gerðum smá æfingar fyrst og síðan fengum við konfekt og jólaöl og svo var pakkaleikur og „allir fengu eitthvað fallegt“.. Mjög skemmtilegt framtak hjá henni Elísabetu sem kennir okkur.


Á fimmtudagskvöldið fórum við Haukur út í Blómaval en þar var Karlakór Selfoss að syngja. Ég elska að hlusta á karlakórssöng. Svo í gær fórum við á jólamarkað í Hvíta húsinu. Mjög fallegir hlutir þar á boðstólum.


Í dag skruppum við í kaffi til Guðbjargar og Magnúsar eftir að hafa verslað í Bónus og síðan fórum við niður á Stokkseyri að skoða jólaskreytingarnar á húsunum þar en það er fastur liður á aðventunni að kíkja á þau undur og stórmerki sem þar finnast.


Ég var að setja inn myndir sem ég hef tekið á aðventunni og set að gamni tilvísun á þær.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

One Response to Aðventan 2004

  1. Anna S. Hjaltad. says:

    Mjög notalegt!
    Sæl Ragna mín!
    Já aðventan er svo sannarlega notaleg. Ég er löngu hætt að stressa mig yfir því þótt hitt og þetta sé á eftir áætlun, neita að taka þátt í þessu kapphlaupi. Það sem verður eftir verður eftir. Mest um vert er að vera saman og njóta augnabliksins!

Skildu eftir svar