Jólalok.

Þá hafa nú enn ein jólin kvatt með kurt og pí.


Við kvöddum jólin saman núna á þrettándakvöld við Haukur, Magnús Már, Guðbjörg, Karlotta og Oddur Vilberg með því að borða saman kjúklinga með kalkúnafyllingu og svo drifum við okkur á álfabrennuna og flugeldasýninguna. Á nýjársdag vorum við mætt í kuldanum þegar átti að kveikja í brennu hérna með flugeldasýningu en það fór nú eiginlega út um þúfur því það bara kviknaði ekki í brennunni nema í nokkrum jólatrjám neðst niðri en að öðru leyti var brennan svo blaut að alls ekki kviknaði í henni.
Í kvöld mættum við hinsvegar öll aftur á íþróttavöllinn ásamt öðrum bæjarbúum og jólasveinunum 13 og nokkrum forynjum. Nú var hinsvegar mikið bál og alveg rosalega fín flugeldasýning. Mér finnst alltaf svo gaman að taka þátt í svona samkomum og sérstaklega skemmtilegt svona í jólalok þegar flestir bæjarbúar eru samankomnir að kveðja jólin. Ekki spillti veðrið því það var þetta fína veður, sem er nú meira en hægt hefði verið að búast við, miðað við veðrið síðustu daga.


Eins og það er nú yndislegt í aðventubyrjun að setja upp allt jóladótið sitt þá hlakka ég til í fyrramálið að taka það niður aftur og setja í geymslu fram að næstu aðventu. Systir mín var alveg sammála mér í gærkvöldi þegar við vorum hjá þeim í mat og ég efast ekki um að það eru fleiri sem eru sammála okkur um þetta. Nú er allt að komast í venjulegt horf. Vatnsleikfimin byrjuð, sem ekki veitir nú af eftir óhóf síðustu tveggja vikna. Nú verður maður bara að reyna að vera svoldið strangur við sig. Það er verst að það eru margir konfektkassar óopnaðir ennþá en það má frysta þá til að hafa á páskunum.


Á morgun 7. janúar hefst nýtt blað hérna í dagbókinni minni þegar ég byrja að tukta mig til eftir hátíðina og reyni að koma í framkvæmd því sem ég náði ekki á síðasta ári.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

2 Responses to Jólalok.

  1. Þórunn says:

    Komin í samband
    Sæl Ragna mín, loksins er ég komin í samband við umheiminn. Þú sérð að ég bíð ekki með að senda þér kveðju, ég er ekki vön að vaka svona lengi. En nú fer lífið að komast í röð og reglu aftur.
    Bestu kveðjur frá okkur Palla
    Þórunn

  2. afi says:

    Nýtt líf
    Konfekt í vatnsleikfimina, hljómar vel.

Skildu eftir svar