Nálastungur og annað dekur í borginni.

Ég er búin að vera í borginni síðan á sunnudag. Ég þurfti að vera þar á mánudaginn en Haukur var að byrja vinnusyrpu svo ég ákvað að vera bara hjá Sigurrós og Jóa í þetta sinn. Þegar ég kom í bæinn þá var Sigurrós í Kringlunni svo ég hitti hana þar. Hún kláraði það sem hún þurfti að gera og svo settumst við niður, fengum okkur smá snarl og fórum svo heim í Arnarsmárann. Um kvöldið borðaði ég svo með þeim þessa líka fínu steik úr George Formann grillinu þeirra  og svo horfðum við Sigurrós á yndislegu kvikmyndina Love Actually.


Morguninn eftir fóru þau auðvitað til vinnu en mér lá ekkert á svo ég ákvað að dekra svoldið við mig fyrst ég var í borgarferð og byrjaði daginn á að leggjast í heitt bað – yndislegt. Það er ekki oft sem maður byrjar á freyðibaði í morgunsárið, best að taka það til athugunar :). Þegar baði lauk og ég var búin að fá mér morgunmat þá ákvað ég að heimsækja tengdamömmu og Ingabjörn. Ég var svo heppin að hitta á þau heima.
Næst lá leiðin á ferðaskrifstofu Sumarferða á Laugaveginum. Það tók mig þó nokkra stund að finna þá skrifstofu sem sögð er á Laugavegi 28 en finnst ekki fyrr en gengið hefur verið í gegnum skuggalegt sund sem liggur alla leið upp á Grettisgötu. þar, eftir nokkra leit í húsinu, fann ég þessa blessuðu ferðaskrifstofu. Erindi mitt þangað ætla ég ekki að ræða núna en ef allt gengur upp þá segi ég frá því seinna.
Nú þurfti ég að hafa hraðann á til að mæta í Domus Medica klukkan korter yfir tvö, sem betur fer náðist það.


Aftur kom smá eyða hjá mér því ég átti tíma hjá Jakobi sjúkraþjálfara klukkan rúmlega fjögur og þar sem Jakob er í Hátúninu þá ákvað ég að heimsækja hana Evu sem ég kynntist í Hveragerði í haust. Hún hefur hringt nokkrum sinnum í mig og beðið mig endilega að koma ef ég yrði á ferðinni. Hún á heima í Laugarnesinu og heppnin var aftur með mér því eins og yfirleitt er með gamla fólkið þá var hún heima. Hjá henni drakk ég kaffi og borðaði konfekt – ég sem er hætt að borða konfekt eftir jólin- suss, suss, best að segja ekki nokkrum manni frá þessu.


Móttökurnar hjá Jakobi voru eins og ég mátti búast við. Hann stakk mig með nálum, þessum sem gera það að verkum að fólk eins og ég, sem ekki vill taka svefntöflur, getur sofið án þess að vaka miðbikið úr nóttinni. Svo togaði hann mig og teygði og eftir nærri tveggja tíma törn þá gekk ég út frá honum eins og ný manneskja og í nótt svaf ég óslitið í 8 klukkutíma en það er langt síðan ég hef getað það. Ó Jakob, af hverju flyturðu ekki á Selfoss?
Það væri nú algjör snilld ef það mætti klóna svona menn! Kannski ég ætti að tala Við Kára Stef.


Ég hitti Guðbjörgu uppi í Mjódd um hádegið í dag og við ókum í samfloti austur á Selfoss aftur.  Það hafði snjóað heilan helling hérna fyrir austan síðan ég fór í bæinn á sunnudag og pallurinn hjá mér er svo fullur af snjó, að ég kemst ekki til að gefa smáfuglunum fyrr en ég verð búin að reyna að moka mér göng. Ég læt það nú bíða til morguns.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

Skildu eftir svar