Snjómoksturinn.

Ég vaknaði við skröltið í snjóruðningstækjunum klukkan að ganga níu í morgun. Ég gat nú svosem fyrirgefið það þar sem ég hafði sofið sæmilega í nótt og það var alveg tímabært að koma sér á fætur.
Þegar ég kíkti út þá sá ég að það var búið að ryðja vegg fyrir innkeyrsluna hjá mér. Ég sá að ég myndi aldrei hafa það af að moka fyrst innkeyrsluna og síðan þennan háa ruðningsvegg. Ég ákvað því að fýta mér á fætur, spenna á mig bakbeltið,fara í gamla skíðagallann hennar Sigurrósar, taka mér skóflu í hönd og vona að ýtustjórinn sæi aumur á þessari gömlu konu og kæmi með hraði til þess að moka planið mitt.


Annaðhvort hefur verið, að hann hafi bara ekki tekið eftir mér eða að sú sé ástæðan, sem ég vona nú öllu frekar, að ég hafi litið út fyrir að vera svona ung og sexy (í gamla skær fjólubláa og bleika skíðagallanum hennar Sigurrósar, sem ég rétt svo gat troðið mér í) að hann hefur bara haldið að ég vildi endilega gera þetta sjálf 🙂 
Það er skemmst frá því að segja að ég mokaði og mokaði og mokaði meiri snjó, þar til konan nærri dó.
Nei, áður en málið yrði nú svo alvarlegt þá var blessaður ýtumaðurinn búinn að sjá að þetta væri bara gömul kona að þykjast vera skvísa í skíðagalla og hann kom og ruddi burtu hæsta ruðningnum sem var við götuna.
Blessaður sé hann fyrir það, því á þeim tímapunkti vissi ég ekki hvort eða hvernig ég kæmist inn aftur. Ég staulaðist inn og náði að fetta mig og bretta eins og mér hefur verið kennt að gera við slíkar aðstæður og síðan skellti ég mér í sjóðandi bað og lá það í drjúgan tíma.
Næst þegar ég fer út að moka ætla ég að fara í gömlu brúnu úlpuna mína svo ýtustjórinn taki strax eftir því að þar sé gömul bakveik kona að reyna að moka sig út.  


Það er gott að eiga svo vatnsleikfimina og heita pottinn eftir seinna í dag til að hressa sig frekar.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

2 Responses to Snjómoksturinn.

  1. Ragna says:

    Ég var spurð af hverju í ósköpunum ég hefði ekki talað við ýtumanninn.
    Hafið þið reynt það þegar svona mikið er hjá þeim að gera? Við gerðum einu sinni slíka tilraun á meðan ég bjó í Reykjavík og reyni það ekki aftur. Það er önnur saga að segja frá því.

  2. Þórunn says:

    Ég sé þig í anda í skvísugallanum, líklega er rétt hjá þér að fara í brúnu úlpuna næst og bera þig ekki svona vel. Það hefur örugglega verið gott að komast í heita baðið á eftir.

Skildu eftir svar