Auðvitað ekkert til að kvarta yfir.

Þá er nú helgin að baki og enn snjóar og síðan spáð rigningu og roki eftir helgina og svo á aftur að kólna. Þeir sem eru gigtveikir eru sífellt að berjast við þennan erkióvin sem veðrið getur verið á stundum.
Ég reyni nú yfirleitt að vera frekar jákvæð en ég verð að viðurkenna að ég er orðin hundleið á þessum umhleypingum í veðrinu. Það er eins og við getum aldrei haft nema einn og einn sólbjartan fallegan dag á milli síðan er komið rok og rigning aftur. Ég verð að leggja heilann í bleyti og reyna að átta mig á hvað Pollýanna hefði fundið gott við þetta.
Mér dettur reyndar strax eitt í hug. Ætli maður tæki eins vel eftir þessum yndislegu góðu dögum ef það væru ekki svona hundleiðinlegir á milli?

Annars hef ég auðvitað ekki yfir neinu að kvarta. Ég hef verið að leika mér svoldið með saumavélina og tuskurnar um helgina og í gær þreif ég allt, þó það eigi nú ekki að vera í frásögur færandi og svo komu Guðbjörg og Magnús í kaffi í dag og Haukur kemur heim á morgun.
Það er, eins og ég sagði áðan, sem sé ekki nokkur ástæða til að vera að væla, hvorki yfir veðri né öðru.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

8 Responses to Auðvitað ekkert til að kvarta yfir.

  1. Magnús Már says:

    Veður
    Oft fýkur í menn sem gera veður útaf öllu.

  2. Ragna says:

    Hei, Magnús minn. Hvernig á ég nú að taka þessu ???

  3. Magnús Már says:

    Orðaleikur
    Ekki mjög alvarlega Ragna mín. Eingöngu orðleikur um veðrið.

  4. afi says:

    Eitt af því sem enginn ætti að amast við er veðrið. Það kemur og fer þegar því sýnist. Hagar sér eftir eigin kenjum og dyntum.

  5. Magnús Már says:

    ….eða eins og segir í vísu Jónasar: Veðrið er hvorki vont né gott,
    varla kalt og ekki heitt,
    Það er hvorki þurrt né vott,
    Það er svo sem ekki neitt

  6. Ragna says:

    Ég þakka kærlega umræðurnar. Ég sé ekki eftir að hafa farið að agnúast út í veðrið því svona finnst mér skemmtilegast að orðabelgurinn sé notaður. Magnús og „Afi“ kær kveðja.

  7. afi says:

    Svo er bara að haga seglum eftir vindi og láta engan bilbug á sér finna þótt móti blási.

  8. Umhleypingar
    Það er nú búið að vera svipað veður hjá okkur hér í Jórdaníu þó að kuldinn sé að vísu minni. Hitastigið fer þó stundum í frostmark en svo lifnar við á daginn og í dag var um 10 stig. Er vorið ekki farið að kíkja svolítið hjá ykkur þarna? Ég veit ekkert eins skemmtilegt eins og þegar dagar lengjast á vorin, yndislegt alveg! Kveðja, Gurrý

Skildu eftir svar