Í bíó o.fl.

Ég ætlaði sko ekki að nefna veðrið í þetta sinn, en hvernig er hægt að búa á Íslandi án þess að nefna veðrið sem er svo mikill áhrifavaldur í öllu sem maður gerir. Það hafa líka verið fjörugar umræður á orðabelgnum mínum einmitt um veðrið svo kannski ætti ég að tala miklu oftar og meira um það.

Haukur er búinn að vera heima í nokkra daga. Við áttum svo að vera í bænum á miðvikudagskvöldið en viti menn það var snarvitlaust veður, Hellisheiðin var lokuð um morguninn og mikil hálka og skafrenningur fram á kvöld. Við hættum því við að fara og sem sárabót fórum við í Selfoss bíó og sáum "Meet the fockers" Við fórum á videoleigu kvöldið áður og náðum í fyrri myndina "Meet the parents". Við vorum nú sammála um það, að þessar blessuðu amerísku gamanmyndir eru eitthvað svo fyrirsjáanlegar og fara einhvernveginn alltaf út í svo mikla vitleysu að maður hættir að geta hlegið að þeim. Breskar gamanmyndir eru hinsvegar mitt uppáhald, a.m.k. all flestar.

Karlotta kom til okkar afa í gær, það var verið að taka sauma úr henni, en hún og vinur hennar voru að grafa sér snjógöng um daginn og grófu sitt hvoru megin frá. Ekki vildi síðan betur til en svo að hún fékk skófluna hans í augnlokið. Hún fékk auðvitað skurð, sem þurfti að sauma með nokkrum saumum og glóðarauga en nú er allt að verða slétt og fellt. Hún var svo hress og spræk hérna í gær en í gærkvöldi var hún allt í einu komin með mikinn hita. Fjárans flensan er sem sé komin á heimilið. Guðbjörg hefur svo miklar áhyggjur af að hún hafi smitað okkur hérna í gær en það verður þá bara að koma í ljós, við erum allavega bæði bólusett. Haukur byrjar aftur á næturvakt á morgun. Það er alltaf svo ótrúlega fljótur að líða tíminn sem hann er hérna fyrir austan.

Ætli ég láti þetta ekki duga í bili.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

3 Responses to Í bíó o.fl.

  1. Magnús Már says:

    Hlátur
    Hláturinn lengir lífið. Spurning hvort einhver taki að sér að segja forsætisráðherranum það.

  2. Ragna says:

    Ja, Magnús minn, hvernig væri að senda honum E-mail 🙂

  3. Sigurrós says:

    Þegar ég las að teknir hefðu verið saumar úr Karlottu þá fór ég að spá hvaða saumar það hefðu verið. Svo þegar ég las lengra þá sá ég ástæðuna fyrir því að mér var ekki sagt frá þessu tiltekna óhappi…
    Mig langar ekki í smáatriðislýsingar… :S

Skildu eftir svar