Föstudagsumferðin í höfuðborginni.

Haukur var að byrja að vinna aftur á föstudagskvöldið og fór því í bæinn eftir hádegið þegar við vorum búin að fara í langan góðan göngutúr. Já, ég ætla nú ekki að gleyma að segja frá því að veðrið var alveg yndislegt á föstudaginn.

Nokkru eftir að Haukur fór, þá datt mér í hug hvort ég gæti fengið klippingu hjá hárgreiðslukonunni minni í Reykjavík á laugardagsmorgunn því ég átti að vera í saumaklúbb um hádegið á laugardag. Hún sagðist ekki vera við á laugardeginum en spurði af hverju ég kæmi ekki bara NÚNA, hún gæti tekið mig klukkan hálf fimm, (þ.e. eftir klukkutíma) því svo ætti hún von á annarri klukkan fimm. Ég horfði út um gluggann á þetta yndislega veður og sá að það yrði alveg frábært að aka í sólinni yfir Hellisheiðina svo ég sagðist bara koma. Ég leit á klukkuna og sá að nú yrði ég að vera snögg að pakka niður til helgarinnar og passa nú að gleyma engu sem ég þyrfti að taka með mér. Ég snerist í hringi á meðan ég var að átta mig á því hvað ég þyrfti að hafa með mér og gleyma nú ekki snyrtidóti og öðru því á laugardeginum var bæði saumaklúbbur og svo afmælisveisla síðdegis.

Þegar ég ók af stað með mitt hafurtask þá voru þrjú korter þangað til ég ætti að mæta. Það var yndislegt að aka afslappaður yfir Hellisheiðina og sjá falleg hvít fjöllin og einstaka gufustróka sem teygðu sig upp í bláan himininn. Það var lítil umferð á leiðinni og ég sá fram á að ég yrði komin í Skipholtið á réttum tíma. Ég var við Rauðavatnið eftir þennan klassíska hálftíma sem það tekur að aka milli Selfossbrúar og hringtorgsins við Rauðavatnið.
Það var hinsvegar eitt sem gleymdist í mínu tímaplani, það var sem sé föstudagur í borginni. Það eru nefnilega allt öðruvísi föstudagar í Reykjavík heldur en utan Reykjavíkur. Þegar ég var að bíða á beygjuljósunum til að komast inn á Vesturlandsveginn þá sá ég tvöfalda bílaröð nærri því niður að brúnni yfir Vesturlandsveginn. Ég var að vorkenna þeim sem ættu heima í Grafarvogi og Mosfellsbæ að þurfa að bíða aftur og aftur og aftur á götuljósunum. Ég komst hinsvegar strax yfir á mínu græna ljósi. En þar með var draumurinn búinn því ég átti eftir að bíða aftur og aftur á öllum umferðarljósum á Miklubrautinni og ekki tók betra við þegar ég þurfti að komast á akreinina sem lá að Kringlumýrarbrautinni. Það er sko ekkert verið að gefa manni sjens á að komast inná, stressið er svo algjört og þegar ég þurfti að komast af Kringlumýrarbrautinni upp í Skipholtið þá beið ég fimm sinnum á beygjuljósunum. Mig langaði mest til að skilja bara bílinn eftir og labba. Ég hefði alla vega verið mun fljótari þannig. Á þessari leið sá ég tvo árekstra. Eina aftanákeyrslu og bíl uppi á umferðareyju og annan laskaðan við hliðina. Ég var líka að hugsa hvað bílar aka nálægt hverjum öðrum. það má ekki mikið út af bera svo maður lendi ekki aftan á næsta bíl og þegar maður lítur í baksýnisspegilinn þá sýnist manni næsti bíll fyrir aftan vera í aftursætinu hjá sér.
Þegar upp var staðið þá eyddi ég lengri tíma í að komast á staðinn eftir að ég var komin til borgarinnar heldur en það tók mig að keyra frá Selfossi.
Mér var sem betur fer fyrirgefið hvað ég kom allt of seint og gat mætt í saumaklúbbinn í hádeginu á laugardaginn og í afmæli Darra, síðar um dagin, með þessa líka fínu klippingu.

Ég held ég hafi þetta nú ekki lengra í bili. þetta er orðið allt of langt hjá mér.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

Skildu eftir svar