Fjárans flensan.

Ég virðist ekki hafa þolað mengunina og óhófið í borginni um helgina. Ég hafði það alla vega af að krækja mér í flensu. Það er svo langt síðan ég hef fengið flensu og beinlínis þurft að liggja í rúminu, að ég man ekki einu sinni hvenær það var.

Nú ligg ég sem sagt og les og sef og naga mig í handarbökin að vera ekki áskrifandi að neinni sjónvarpsstöð sem hægt er að horfa á á daginn. Það kom sem sé loksins að því að ég gæti vel hugsað mér að horfa á sjónvarpið um miðjan dag – þvert ofaní öll mín prinsipp að horfa ekki á sjónvarp á daginn. Já svo bregðast krosstré sem önnur tré. En tónlistarmyndböndin á Skjá einum freista mín ekki og Fréttir frá Alþingi eru afspyrnu leiðinlegar til lengdar.
Ég uppgötvaði hinsvegar þátt klukkan fimm í ríkissjónvarpinu sem heitir Leiðarljós. Ekki þekkti ég nú neinn á þeim bæ og kannski var flensunni um að kenna hvað ég var sljó, því ekki gat ég með nokkru móti áttað mig á öllum þessum flóknu ástarsamböndum og því hver var að halda framhjá hverjum en þátturinn virtist snúast um það.
Þetta er nú meiri sápukúlan.

Ég er ekkert ein um að liggja í flensu því Karlotta sem var veik um daginn er komin með lungnabólgu og Sigurrós er líka veik.

Ekki held ég nú lengur út við tölvuna og bið bara að heilsa ykkur í bili. Næst þegar ég skrifa ætla ég að vera orðin frísk.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

One Response to Fjárans flensan.

  1. Láttu þér batna sem fyrst!
    Leitt að heyra með flensuna. Ég þekki nokkrar sem segja að fólkið í Leiðarljósi sé vinir þeirra. Ein af þeim er að vinna á sýningartíma og hún tekur alla þætti upp til að missa ekki af þeim.

Skildu eftir svar